151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

útlendingar.

230. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U):

Frú forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum, er varða aldursgreiningu.

Aldur er hluti af auðkenni einstaklings og við mat á þörf og rétti umsækjanda um alþjóðlega vernd til tiltekinnar þjónustu er mikilvægt að fyrir liggi hvort umsækjandi sé barn eða fullorðinn. Börn eiga rétt á stuðningi og aðstoð í samræmi við stöðu sína sem börn.

Hér á landi felst líkamsrannsókn til aldursgreiningar í greiningu á aldri út frá tannþroska. Fjórum mismunandi aðferðum er beitt og gefinn upp meðalaldur samkvæmt þeim og staðalfrávik. Annars staðar á Norðurlöndunum er aldur einnig greindur út frá þroska tanna en samhliða er þar notast við greiningu á þroska beina. Danir einir greina aldur auk þess út frá kynþroska, en sú aðferð hefur hlotið mikla gagnrýni.

Víða hafa aldursgreiningar byggðar á líkamsrannsóknum verið gagnrýndar, bæði vegna siðferðislegra þátta og vísindalegrar ónákvæmni. Þá hafa komið fram tilmæli frá Evrópuráðinu, Evrópuráðsþinginu og ráðherranefnd Evrópuráðsins, en megininntak þeirra er að þegar vafi leikur á því hvort umsækjendur sem sækja um alþjóðlega vernd séu börn skuli þeir ávallt metnir sem börn en ekki sem fullorðnir, og að beitt skuli heildstæðu mati til að reyna að komast að aldri þeirra en ekki tanngreiningum sem eru taldar afar óáreiðanleg aðferð til að mæla aldur barna. Ný tilmæli Evrópuráðsins um framkvæmd aldursgreininga hafa nýlega verið gefin út og kynnt aðildarríkjum, og þar á meðal Íslandi.

Málþing um framkvæmd aldursgreiningar á flóttabörnum í Evrópu og ný tilmæli Evrópuráðsins, um framkvæmd aldursgreininga, fór fram að frumkvæði þeirrar er hér stendur hér á landi 29. mars 2019. Meðal framsögumanna var Tomás Bocek, sérstakur fulltrúi Evrópuráðsins í málefnum flóttamanna. Á málþinginu var m.a. rætt um frumvarp það til laga um breytingu á útlendingalögum, sem lagt var fram á 149. löggjafarþingi, en er verið að flytja hér aftur, og lýsti Tomás Bocek yfir stuðningi sínum við þær breytingar sem kynntar eru í þessu frumvarpi hér. Í ályktun Evrópuráðsþingsins, nr. 2295 frá 27. júní 2019, er rifjuð upp fyrri ályktun þess um barnvænar aldursgreiningar fylgdarlausra barna, auk þess sem hvatt er til heildstæðs mats. Í ályktuninni segir Evrópuráðsþingið m.a. að þingið ítreki fyrri afstöðu sína, þ.e. fordæmi íþyngjandi aðferðir við aldursgreiningar sem haft geti þungbær áhrif á líkamlegan, tilfinningalegan og sálrænan þroska barna. Jafnframt fagnar þingið herferð þingmanna um mótun heildstæðra aðferða við aldursgreiningar. Í þeirri herferð hefur sú sem hér stendur tekið þátt með virkum hætti.

Til að ná framangreindu markmiði eru hér lagðar til breytingar á 113. gr. laga um útlendinga þess efnis að aldursgreining skuli fara fram með heildstæðu mati og ávallt vera í samræmi við þá löggjöf sem tryggir réttindi barna. Flutningsmaður, sú sem hér stendur, leggur áherslu á að ferli aldursgreiningar sé skýrt og gagnsætt og að sá sem gætir hagsmuna barnsins sé viðstaddur aldursgreininguna. Upplýsingar til barns skulu settar fram á barnvænan hátt þannig að barnið geti skilið þær í samstarfi við þann sem gætir hagsmuna barnsins. Þá er mikilvægt að matið sé hlutlægt og óhlutdrægt og framkvæmt í samvinnu við þar til bæra sérfræðinga.

En hvað þýðir heildstætt mat? Jú, heildstætt mat skal þannig enn taka mið af aðstæðum, frásögn viðkomandi og fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum en auk þess skal stuðst við skjalaleit, faglegt mat eða aðkomu sérfræðinga í málefnum barna, svo sem sálfræðinga eða félagsráðgjafa, til að greina aldur umsækjenda.

Ekki verður heimilt að beita líkamsrannsóknum til að ákvarða aldur, svo sem með skoðun á þroska handa, hnéskelja eða tanna, nema verulegur vafi leiki á aldri útlendings þrátt fyrir að öðrum úrræðum við hið heildstæða mat hafi verið beitt. Með öðrum orðum, ef hið heildstæða mat nær ekki fram að ganga, til að mynda vegna þess að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar vantar eða skjöl, og sú leið hefur verið reynd til þrautar, skal líkamsrannsókn vera síðasta úrræðið sem stjórnvöld beita og skal eingöngu framkvæmd af viðeigandi sérfræðingum í votta viðurvist og ef fyrir liggur upplýst samþykki barns og/eða þess sem gætir hagsmuna barnsins. Líkamsrannsókn skal þá framkvæmd af sérfræðingum í tannlækningum, eða eftir atvikum læknum sem tilnefndir eru af stjórnvöldum, og skal líkamsrannsókn að auki ávallt fara fram í viðurvist sérfræðings á sviði sálfræði barna og unglinga eða í félagsráðgjöf. Ávallt skal taka mið af hagsmunum barnsins þegar metið er hvort leggja skuli fyrir viðkomandi að gangast undir líkamsrannsókn. Einnig er tiltekið í þessu frumvarpi um breytingar á lögum um útlendinga, að óheimilt sé með öllu að beita skoðun á þroska kynfæra sem aðferð til að ákvarða aldur. Það er gríðarlega nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði skýrt í þessum breytingartillögum og ætti að sjálfsögðu að vera skýrt tekið fram í núverandi lögum um útlendinga.

Síðan vil ég nefna að þegar tekin er ákvörðun um að útlendingur gangist undir aldursgreiningu með heildstæðu mati skiptir miklu að viðkomandi sé leiðbeint á skýran og skilmerkilegan hátt ásamt því að hann sé upplýstur um ástæður þess að hann gangist undir slíkt mat.

Í ljósi þess að mikilvæg réttaráhrif felast í ákvörðun um aldur umsækjenda, þó svo að mörg okkar vildu helst trúa fólki og þurfa ekki að vera með þessi nákvæmu vinnubrögð til að ákvarða aldur umsækjenda um alþjóðlega vernd heldur ganga frekar út frá því að viðkomandi væri að segja satt, sem væri nú það besta í fullkomnum heimi, þá er hér verið að leggja fram frumvarp til þess að þessar ákvarðanir séu teknar út frá hagsmunum barna og unglinga. En eins og við vitum þá felast í því mikil réttaráhrif þegar ákvörðun liggur fyrir um aldur umsækjenda, hvort þeir teljist eldri eða yngri 18 ára. En þegar niðurstaða er komin fram er gríðarlega mikilvægt að hægt sé að kæra niðurstöður ákvarðana Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála um hvort þeir teljist eldri eða yngri en 18 ára, og jafnframt er lagt til að slík kæra fresti réttaráhrifum. Þessi hluti breytingarinnar sem felst í frumvarpinu er því miður ekki til staðar í núverandi lögum.

Herra forseti. Mig langar aðeins að nefna hér umsagnir sem bárust við málið þegar það var lagt fram síðast, á 150. löggjafarþingi — það var líka lagt fram á 149. löggjafarþingi — og bárust þá góðar og gildar umsagnir mannréttindasamtaka sem tekið var tillit til við endurframlagningu málsins.

Mig langar aðeins að tæpa á umsögn Rauða krossins á Íslandi frá 18. október 2019, en Rauði krossinn hefur um alllangt skeið gert alvarlegar athugasemdir við aldursgreiningar Útlendingastofnunar. Í umsögn Rauða krossins kemur fram að athugasemdum varðandi það hafi verið komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, dómsmálaráðuneytið, umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, umboðsmann Alþingis og fjölmiðla, en þrátt fyrir það hafi ekki verið gerðar breytingar á lögum um útlendinga er varða þann þátt, þ.e. aldursgreiningar. Rauði krossinn dregur fram í umsögn sinni að samtökin hafi ítrekað lagt fram tillögur að úrbótum með vísan til alþjóðlegra skýrslna um aldursgreiningar á fylgdarlausum börnum. Það er gleðilegt að sjá að svona virt og stór mannréttindasamtök eins og Rauði krossinn er taka undir með þeirri er hér stendur, flutningsmanni frumvarpsins, að þær aðferðir sem beitt er hér á landi við greiningu á aldri umsækjenda um alþjóðlega vernd uppfylli ekki skilyrði reglugerðar um útlendinga þar sem fram kemur að við greiningu á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásögn hans af ævi sinni, en að auki megi beita líkamsrannsókn.

Það eru sem sagt ákveðin ákvæði í lögunum en þeim hefur ekki verið beitt heldur hefur verið farin hin skemmri leið, að beita frekar líkamsrannsókn. Þá hefur Rauði krossinn gagnrýnt að enginn sem komi að matinu hafi sérþekkingu á andlegum eða líkamlegum þroska barna, auk þess sem mikil óvissa felist í tanngreiningum og að mikil hætta sé á röngum greiningum þegar um sé að ræða börn 16 ára og eldri. Rauði krossinn segir í umsögn sinni að dæmi séu um að einstaklingar hafi verið greindir eldri en 18 ára í tanngreiningu á Íslandi, en síðar hafi komið í ljós að skilríki sem þeir framvísuðu voru ófölsuð og þeir metnir yngri en 18 ára. Rauði krossinn bendir á að þetta sýni með óyggjandi hætti að ekki megi leggja of mikla áherslu á niðurstöðu tanngreininga því að þær séu engan veginn nákvæmar. En þrátt fyrir það hafi yfirvöld lagt of mikla áherslu á niðurstöðu tanngreininga í meðferð þessara mála, en það dragi að sjálfsögðu úr réttindum þessara barna. Rauði krossinn dregur fram dæmi, í umsögn sinni frá 18. október 2019, sem ég hvet alla áhugasama til að lesa á vef Alþingis, um einstakling sem var aldursgreindur vitlaust og urðu af því miklar afleiðingar fyrir líf viðkomandi.

Þar sem ég vísaði hér til tillagna Evrópuráðsins, en ég sit í flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins og er varaformaður þeirrar nefndar, þá langar mig til að minna á að Evrópuráðið gaf út skýrslu, í september 2017, sem fjallar um aldursgreiningar og er þar fjallað um hvað felst í heildstæðu mati. Þar segir að til að mat geti talist heildstætt þurfi það að fela í sér aðkomu þverfaglegra sérfræðinga og aðferða. Matið skuli vera byggt á líkamlegum, sálrænum, þroskafræðilegum, félagsfræðilegum og umhverfistengdum þáttum. Mikilvægt sé að að matinu komi barnalæknar og barnasálfræðingar. Þá skuli þeir sérfræðingar sem koma að matinu hafa í huga ólík uppvaxtarár einstaklinga og taka til greina persónulega frásögn þeirra af sögu sinni. Og, eins og Rauði krossinn bendir á, er mikilvægt að íslensk stjórnvöld þrói heildstætt mat til greiningar á aldri í samvinnu við sérfræðinga og Barnahús. En eins og við vitum öll þá býr Ísland yfir þessari ótrúlegu reynslu sem aðrar þjóðir hafa verið að taka upp, sem er Barnahús og hið svokallaða Barnahús-módel sem notað hefur verið bæði þegar kemur að því að rannsaka ásakanir um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og sömuleiðis er verið að nota það í mörgum Evrópuríkjum, sem tekið hafa upp þetta Barnahús-módel, til að aðstoða fylgdarlaus börn á flótta sem, eins og við vitum sem höfum fylgst mikið með þessum málum, eru einn allra viðkvæmasti hópurinn sem leggur á flótta undan skelfilegum aðstæðum í sínu eigin landi og er í gríðarlegri hættu gagnvart misnotkun, misbeitingu og ofbeldi, kynferðisofbeldi og mansali og er í mikilli hættu á að falla í hendur á mansalshringjum, glæpagengjum og glæpasamtökum sem nýtt hafa sér neyð barna og unglinga á flótta.

Við á Íslandi höfum þetta Barnahús-módel og það er gríðarlega verðmætt. Við þurfum að þróa það áfram til þess að nýta okkur það í málefnum fylgdarlausra barna og barna á flótta, vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur að börn í þessum hópi hafa upplifað gríðarlega mikil áföll í æsku og bera mörg hver með sér reynslu sem ekkert okkar myndi nokkurn tímann vilja öðlast. Þannig að við höfum tækifæri til þess, tæki og tól og reynslu, til að þróa þetta heildstæða mat.

Síðan langar mig líka til að nefna að í fylgiskjali með umsögn Rauða krossins, þeirri vönduðu umsögn — og ég vil þakka starfsfólki Rauða krossins fyrir þessa góðu umsögn því að hún bætir miklu við og var litið til hennar við framlagningu málsins núna — er skýrsla um ónákvæmni röntgenrannsókna á tönnum, sem er gríðarlega vel úr garði gerð og ákaflega gott gagn fyrir áhugasama.

Mig langar líka til að þakka UNICEF og Barnaheillum, sem taka undir þetta frumvarp og tala út frá réttindum barna. Sömuleiðis vil ég fagna og þakka fyrir baráttu Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem gaf út yfirlýsingu þann 27. september 2018 vegna aðkomu Háskóla Íslands að aldursgreiningum á fylgdarlausum hælisleitendum hérlendis, en þær aldursgreiningar höfðu farið fram innan veggja Háskóla Íslands með sérstökum samningi Háskóla Íslands við Útlendingastofnun. Stúdentaráð lýsti yfir andstöðu sinni við að Háskóli Íslands kæmi að þessum rannsóknum og barðist ötullega gegn því. Sú barátta vakti athygli og hreyfði við málum. Það var gott að finna fyrir stuðningi stúdenta við þetta gríðarlega mikilvæga mál, og finna að stúdentar standa með hælisleitendum, standa með börnum og unglingum sem eru á flótta og standa með mannúðlegri meðferð ungs fólks á flótta og gerðu það þannig að það vakti gríðarlega mikla athygli.

Ég vil sömuleiðis benda á umsögn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, um frumvarpið, sem kom fram 18. október 2019. Hún vekur athygli á afleiðingum aldursgreiningar, og gerir það í ljósi þess að UNICEF á Íslandi fór í mikla vinnu við að taka viðtöl við börn sem hingað höfðu komið, bæði fylgdarlaus börn og börn með forsjáraðila, og undirgengust aldursgreiningu. Í viðtölum UNICEF á Íslandi við þessi börn sem komu til Íslands komu fram sjónarmið barna sem vörpuðu nýju ljósi á áhrif aldursgreiningar.

Ég stikla á því sem kom fram í umsögn Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi:

Annars vegar reyndust ekki öll börn fá fulla þjónustu í samræmi við aldur og þroska fyrr en aldursgreining lá fyrir, þrátt fyrir að lög hér á landi og alþjóðlegir sáttmálar og samningar sem Ísland hefur undirgengist, kveði á um að barn eigi alltaf að njóta vafans. Hins vegar leiddi greining, sem mat barn eldra en 18 ára, til mun verri stöðu hvað varðar stuðning og aðbúnað í daglegu lífi.

Í umsögninni rekur UNICEF líka dæmi um að niðurstaða líkamsrannsóknar hafi leitt til þess að barn var ranglega sagt eldra en 18 ára, að skilríki barna sem sýndi aldur þeirra var ekki tekið trúarlegt, og að stjórnvöld hafi verið gerð afturreka með aldursgreiningar sínar vegna ónákvæmni þeirra, allt með alvarlegum afleiðingum fyrir líf og heilsu viðkomandi barna.

Það er því mjög gott að fá þessar sterku og öflugu umsagnir þessara góðu og virtu mannréttindasamtaka við frumvarpið sem ég mæli hér fyrir, um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er varða aldursgreiningu á börnum. Útlendingalögin hafa oft verið til umræðu í þingsal og er nefnd starfandi sem hefur það hlutverk að fara yfir hvort breyta þurfi þessum lögum. Ég tel að það sé löngu tímabært að nefndin skili af sér einhvers konar tillögum um breytingar og þá sérstaklega breytingar í þágu barna og unglinga og að réttindi þeirra séu tryggð í hvívetna.

Herra forseti. Þetta frumvarp hér er viðleitni til þess að tryggja enn betur og festa enn betur í sessi réttindi barna, hvort sem þau eru fylgdarlaus eða koma hingað til að hitta fjölskyldumeðlimi, eða eru í leit að alþjóðlegri vernd, eða hvernig sem það er. Ég hvet þingheim til þess að samþykkja þessa breytingu, þetta frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga. Ég óska allsherjar- og menntamálanefnd, sem þetta frumvarp gengur væntanlega til, alls hins besta og vona að nefndin verði samstiga í því að samþykkja þessa breytingu, börnum og unglingum til heilla.