151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

[14:20]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa seinni spurningu. Svarið við fyrri spurningunni, hvort barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé valkvæður eða ekki, er algjörlega ljóst: Nei, hann er ekki valkvæður. Við eigum í öllum tilfellum að fara að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eitt af því sem kom nýtt inn í útlendingalögin á sínum tíma var að vinna skyldi sjálfstætt mat á hagsmunum barnsins þegar svona mál kæmu upp. Það er hins vegar ekki einstakra ráðuneyta eða ráðherra að vinna slíkt mat. Það er á hendi þeirra stofnana sem eru í samfélaginu og sýsla með einstaklingsmál á hverjum einasta degi og Útlendingastofnun er þar á meðal. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það við dómsmálaráðherra að við þurfum að vera viss um að þetta hagsmunamat sé unnið með þeim hætti sem við viljum að það sé unnið, að það séu ekki glufur í því. Í málum sem komið hafa upp hef ég lýst efasemdum við dómsmálaráðherra um að það sé í öllum tilfellum þannig. Ég veit að dómsmálaráðherra hefur verið með vinnu í gangi varðandi það og ég veit að í þingmannanefnd er m.a. til umfjöllunar skýrsla um málefni útlendinga, og þar á félagsmálaráðuneytið fulltrúa sérstaklega til að varpa ljósi á málefni barna og til þess að aðstoða við vinnuna sem lýtur að því.