151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Fjárlög eru lögð fram á grundvelli þjóðhagsreikninga og uppgjörsaðferðin er svonefndur GFS-hagsýslustaðall Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og síðan er birt ákveðin afkomumæling. Á hinn bóginn er það uppgjör sem er lagt fram í ríkisreikningi, gert á grundvelli reikningsskilastaðals sem heitir IPSAS og er alþjóðlegur fyrir opinbera aðila eins og kom fram. Það er nú þannig að töluverður munur er á afkomumælingum samkvæmt þessum aðferðum, en fremur lítil skil eru gerð á þeim mun í ríkisreikningi. Ég tel að það væri til mikilla bóta, fyrir umræðu um fjármál ríkisins hér á Alþingi, ef gerð væri viðameiri grein fyrir þeim mun sem verður á einstökum tölum á milli þessara aðferða. Ítarlegri greiningu vantar á frávik milli þessara aðferða til að menn sjái mismuninn og gerð sé grein fyrir ástæðum hans.

Ríkisendurskoðun endurskoðar ekki GFS-uppgjörið, eða þjóðhagsreikningauppgjörið, en það uppgjör hefur mikið vægi í allri umræðu um efnahagsmál. Hins vegar endurskoðar Ríkisendurskoðun ríkisreikninga sem gerðir eru samkvæmt IPSAS-staðlinum og eins og áður hefur komið fram gefa þessar tvær aðferðir mismunandi niðurstöður. Ríkisreikningur er hins vegar mjög mikilvægur í allri umræðu um efnahagsmál og við mælingar á rekstrarárangri ríkisins, stofnana þess og fjárlagaliða. Þess vegna langar mig að spyrja hvort hæstv. fjármálaráðherra telji ekki æskilegt, og til mikilla bóta, að gera mun nánari grein fyrir frávikum á þessari aðferð en fram kemur á bls. 8 í ríkisreikningi.