151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur og tek undir mikilvægi þess að hlustað sé á nemendur, það er mikilvægt við mótun stefnu, og það er líka mikilvægt í menntun almennt að þeir læri um lýðræði og mikilvægi þess að láta rödd sína heyrast þannig að það er mikið fagnaðarefni. Ég hygg að búið sé að vinna mjög vel í þessum málum — og af því að ég sé hæstv. barnamálaráðherra hérna í salnum vil ég segja að rödd barna skiptir máli, þau eiga að læra að það skiptir máli að taka þátt og láta í sér heyra.

Mig langar bara aðeins að koma inn á það sem hæstv. ráðherra nefndi varðandi læsi, ég fagna því mjög að við horfum í auknum mæli á lesskilninginn. Ég held að við flest áttum okkur á, ef við lítum á orðaforðann, að því miður er hann að fara töluvert niður á við og maður finnur það þegar maður les fyrir börn bækur sem eru kannski, hvað eigum við að segja, meira en tíu ára gamlar eða eitthvað svoleiðis, að þar er oft orðaforði sem börnum í dag er síður tamt að nota. En þá kemur fram hvað þau eru orðin rosalega góð í ensku vegna þess að þau eru einmitt að nota miðla þar sem enskan er svolítið alls ráðandi. Ég verð að viðurkenna, eigandi einn 13 ára, að hann er stundum með orðið á ensku en vantar það jafnvel á íslensku. Það er sérstakt, ég viðurkenni það. En ég ætla samt að fagna því að hann er þá rosalega góður í ensku. Það er líka gott.

En þarna er einmitt komið að punkti tvö, sem er framþróun íslenskunnar og hvað við þurfum að vera stöðugt á tánum. Við erum það varðandi miðlana okkar, að þróa íslenskuna inn í þetta tækniumhverfi allt saman og mikilvægi þess að við bjóðum upp á gæðaefni. Þegar ég segi við, þá þarf gæðaefni á íslensku að vera í boði á þessum miðlum öllum. Ef við sem ríkisvald getum stutt við það þá er það af hinu góða.