151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vextir og verðtrygging o.fl.

38. mál
[19:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og mig langar að gefa henni tækifæri til að útskýra fyrir mér af hverju við eigum að banna þetta. Ég verð að viðurkenna að ég bara skil það ekki. Ég hygg að flestar lánastofnanir bjóði í dag upp á annars vegar verðtryggð lán og hins vegar óverðtryggð lán. Þar sem meiri hluti af fasteignalánum almennings liggur hjá lífeyrissjóðunum, sem við eigum jú líka og ég vil gjarnan að mín lífeyrisréttindi séu verðtryggð, sé ég ekki að ástæðuna fyrir því að lífeyrissjóðnum mínum ætti að vera bannað að veita lán með verðtryggingu.

Hv. þingmaður vísar í að kallað sé eftir þessu, umræðan hafi verið lengi og allir séu einhvern veginn á móti þessu. Ég held að allir séu á móti verðbólgu og allir sjái djöful í verðbólgu, sérstaklega í verðbólguskotum. Það er raunverulega vandamálið í mínum huga en ekki verðtryggingin per se. Lífeyrissjóðirnir og flestar lánastofnanir ef ekki allar bjóða upp á báða möguleikana. Ég held að það sé mikilvægt og við eigum að geta valið. Sem betur fer hefur okkur lánast að gera þennan markað kvikari og breytilegri þannig að stór hluti fólks er að endurfjármagna, meiri hluti las ég einhvers staðar á netinu, ég veit ekki hvernig staðan er á því akkúrat núna. Fólk er að breyta um lánveitanda, fara frá bankanum til lífeyrissjóðsins eða öfugt, sem er gott. Fólk er að horfa í það hvar hægstæðustu vextirnir eru, hvaða kjör séu hagstæð. Fólk fer þangað. Það held ég að sé stórt skref. Áður var fólk bara fast hjá Íbúðalánasjóði. Sem betur fer er þessi færsla á markaðnum og það kemur í ljós að stór hluti velur verðtryggð lán. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Af hverju að banna eitthvað?