151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

umferðarlög.

280. mál
[19:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019. Frumvarpið er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og er markmið þess í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að aukin stjórnsýslubyrði og kostnaður leggist á borgara, skýra lagaákvæði og lagfæra vankanta á lögunum sem komið hafa fram. Þá er það einnig markmið frumvarpsins að tryggja viðeigandi lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar 2019/631/ESB um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný létt atvinnuökutæki.

Með umferðarlögum, nr. 77/2019, var gerður fjöldi breytinga á þeim reglum sem giltu samkvæmt eldri lögum nr. 50/1987. Sumar breytinganna þykja of íþyngjandi gagnvart borgurum landsins auk þess sem þörf er á lagfæringu tiltekinna ákvæða, einföldun eða skýringu á orðalagi.

Með frumvarpinu eru því lagðar til ýmsar breytingar á umferðarlögum og mun ég nú fara yfir þær helstu.

Lagt er til að skýrt komi fram að ákvæði laganna um bann við lagningu eða stöðvun og lagningu ökutækja á tilteknum svæðum taki til allra skráningarskyldra ökutækja en ekki aðeins vélknúinna. Þannig taki bannið sem dæmi einnig til skráningarskyldra eftirvagna.

Ákvæði laganna um göngugötur þykja of hamlandi en þar er tæmandi talið hvers konar umferð vélknúinna ökutækja um þær er heimil og heimildir sveitarfélaga til að veita sérstakar undanþágur eru mjög þröngar. Því er í frumvarpinu að finna ákvæði sem veitir veghaldara sérstaka heimild til að leyfa akstur íbúa og rekstraraðila um göngugötur til og frá lóð þeirra. Hið sama gildi um íbúa og rekstraraðila í nærliggjandi götum ef aðgengi að bifreiðastæðum þeirra er aðeins frá göngugötu. Að auki verði veghaldara heimilt að kveða á um aðrar undanþágur frá banni við akstri vélknúinna ökutækja um göngugötu en taldar eru upp í lögunum í dag. Slíkar undanþágur skuli setja sem sérákvæði um notkun vegar og gefa til kynna með umferðarmerki í samræmi við 4. mgr. 84. gr. laganna. Með þessu verður ákvörðunarvald um heimila umferð um göngugötur fært í stærri mæli til sveitarfélaga í samræmi við hlutverk þeirra og ábyrgð sem veghaldarar.

Í stað þess að leita skuli samþykkis veghaldara í öllum tilvikum þegar Samgöngustofa veitir undanþágur frá reglum um stærð og þyngd ökutækja þegar brýn nauðsyn þykir vegna slíkra flutninga, er lagt til að ávallt skuli leita samþykkis Vegagerðarinnar. Sérstaklega verði þó tekið fram í lögunum að binda megi slíka undanþágu skilyrðum, t.d. um að sá sem óskar eftir undanþágu leiti samþykkis viðkomandi veghaldara ef flutningur fer fram á vegi eða vegum þar sem Vegagerðin er ekki veghaldari.

Í dag er að finna sérstaka heimild í umferðarlögum til að setja reglugerð um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum ríkisins. Ráðherra skal innheimta slíkt gjald eða fela öðrum að sjá um innheimtuna með samningi. Til að einfalda megi þetta ferli er lagt til að ráðherra geti einnig heimilað ríkisaðila að sjá um innheimtu gjalds fyrir notkun stöðureita sem ríkisaðili hefur umsjón með án þess að gera þurfi sérstakan samning um innheimtuna. Þannig verði með tiltölulega einföldum hætti hægt að fela ríkisaðilum sem þess óska ábyrgð og umsjón álagningu slíks gjalds.

Á undanförnum árum hafa hjólreiðar aukist mikið hér á landi og er nú mun meira um að ólíkir samgöngumátar deili vegrými en áður. Því þykir eðlilegt að sett verði inn heimild til að beita sektum fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum laganna um undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn.

Bent hefur verið á að ákvæði um að heimilt sé að beita þann viðurlögum sem stjórnar eða reynir að stjórna hjóli eða hesti, sé hann undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra efna að hann geti ekki stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega, sé ekki nægilega skýrt miðað við þær kröfur sem gera þarf til refsiákvæða og er því lagt til að ákvæði um þessi efni verði gert skýrara.

Hámarksfjárhæð sekta sem heimilt er að ákveða með reglugerð fyrir refsiverð brot gegn ákvæðum laganna er í dag ákveðin í 97. gr. laganna. Lagt er til að í stað þess að hámarkið sé að finna í lögunum verði kveðið á um hámarksfjárhæðina í reglugerðinni sjálfri. Með þessu má ná fram aukinni skilvirkni og tryggja betur að fjárhæðir sekta fyrir brot gegn lögunum séu í samræmi við alvarleika brota en verðlagsbreytingar eru almennt tíðar hér á landi. Þannig má nefna að hámarksfjárhæð sekta sem heimilt er að ákveða í reglugerð fyrir brot gegn umferðarlögum hafði staðið í stað í 16 ár þar til gildandi umferðarlög öðluðust gildi en verðlag og laun höfðu hækkað nokkuð á tímabilinu. Rétt er þó að taka fram að í dag eru engin stök umferðarlagabrot sem varða sektum sem nema þeirri hámarksfjárhæð sem heimilt er að ákveða með reglugerð.

Þá er með frumvarpinu lagt til að eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verði veitt heimild til að leggja umframlosunargjöld á framleiðendur ökutækja sem uppfylla ekki viðmið um hámarksútblástur ökutækja. Þetta er lagt til svo innleiða megi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2019/631 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki. Engir framleiðendur ökutækja eru starfandi á Íslandi í dag og því kemur innleiðing reglugerðarinnar fyrst og fremst til með að hafa óbein áhrif hér á landi. Innleiðing reglugerðarinnar kemur þó mögulega til með að hafa þau áhrif að Ísland verði fýsilegra markaðssvæði fyrir vistvæn ökutæki evrópskra ökutækjaframleiðenda. Ástæða þess er að framleiðendur munu geta skráð vistvæn ökutæki sem sett verða á markað hér á landi til lækkunar vegins meðaltals losunar koltvísýrings frá framleiddum ökutækjum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins og vísa að öðru leyti til frumvarpsins sjálfs og greinargerðar sem fylgir því. Það er mitt mat að samþykkt frumvarpsins komi til með að stuðla að einfaldara og skýrara lagaumhverfi og því að íslenska ríkið uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Legg ég því til að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.