151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vildi aðeins í þessari umræðu koma inn á það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi hér áðan sem varðar mikilvæga stöðu einyrkja og smárra fyrirtækja í því ástandi sem við búum við núna. Ég held að það sé ekki sanngjarnt að segja að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi ekki miðast við þessa aðila með sama hætti og stærri aðila. Það hefur verið reynt varðandi þær aðgerðir sem þegar hafa komið til framkvæmda að sníða skilyrði og fyrirkomulag þannig að það gæti nýst smærri fyrirtækjum með sama hætti og stærri. En hugsanlega skortir eitthvað upp á að upplýsingum um möguleika í þeim efnum hafi verið komið skilmerkilega á framfæri gagnvart þeim aðilum sem í hlut eiga. Það segir sig sjálft að staða þeirra sem eru í einstaklingsrekstri eða litlum fjölskyldurekstri til að afla sér upplýsinga, leita sér ráðgjafar um þá möguleika sem í boði eru, er kannski ekki sú sama og hjá stærri fyrirtækjunum sem hafa sérfræðinga á sínum snærum sem geta gengið í þessi verkefni. Ég er alveg sannfærður um að hægt er að bæta töluvert úr því upplýsingastreymi gagnvart þessum aðilum með það að markmiði að þeir geti nýtt sér þann rétt sem þeir eiga samkvæmt þeim úrræðum sem þegar hefur verið gripið til.

Hitt er svo annað mál að þetta er líka atriði sem er til skoðunar í sambandi við aðgerðir sem eru í undirbúningi eða eru í vinnslu. Ég get sagt það að þeirri skoðun hefur verið komið skýrt á framfæri við ríkisstjórn eða ráðamenn að þetta sé atriði (Forseti hringir.) sem þurfi að hafa í huga, enda er það rétt, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði, að það er gríðarlega mikilvægt að þessir aðilar séu verndaðir fyrir högginu með sama hætti og þeir sem stærri eru.