151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir góða umræðu og ráðherra fyrir svörin sem þegar hafa birst. Það er mikill stuðningur við ylrækt í landinu og það kemur reglulega fram í þinginu. Í gær var flutt nefndarálit atvinnuveganefndar um breytingartillögu á búvörulögum, nr. 99/1993, vegna starfsskilyrða framleiðenda garðyrkjuafurða. Þar er stigið gott skref til stuðnings við greinina, en við eigum að stíga fastar til jarðar og byggja ylræktina frekar upp með öflugum stuðningi þar sem virðisauki endurnýtanlegra auðlinda landsins er nýttur til að auka framleiðslu ylræktar, og fjölga störfum í greininni sem nú þegar er á við fjölmennustu vinnustaði landsins eða um 700 manns. Í umræðum um samdóma nefndarálit atvinnuveganefndar í gær kom fram mikill vilji þingmanna til að bæta enn frekar stöðu ylræktar í landinu og auka fyrirsjáanleika. Það á líka við um landeldi.

Virðulegur forseti. Fyrirsjáanleiki í rekstrarskilyrðum bænda sem tengjast búvörusamningum og niðurgreiðslu á raforku og flutningskostnaði raforku er einn mikilvægasti þátturinn í afkomumöguleikum bænda til að auka framleiðslu sína og til að markmið um 25% aukningu á framleiðslu ylræktar verði að veruleika, eins og gert er ráð fyrir í nýjum samningi landbúnaðarráðherra við garðyrkjubændur, sem leiddi af sér breytingu á búvörulögum. Í hálaunalandi eins og Íslandi eru samkeppnisskilyrði garðyrkjunnar erfið, en í landinu er framleidd orka sem getur bætt samkeppnisstöðu garðyrkjunnar með því að virðisauki af auðlindinni verði nýttur til að efla innlenda framleiðslu í samkeppni við innlendar niðurgreiddrar afurðir annarra landa auk heilnæms vatns og umhverfis á Íslandi sem er auðvitað í grænni endurnýjanlegri orku.

Virðulegur forseti. Vinna þarf markvisst að stuðningi við nýliðun í garðyrkju, m.a. með fjárfestingarstuðningi. Ég velti fyrir mér hvort skoða mætti þær leiðir sem þingið hefur samþykkt í húsnæðismálunum, fyrstu kaupenda hlutdeildarlánin. Það er klárlega skoðunar virði að styðja við bakið á nýliðun og nýsköpun ferskra afurða.