151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Það er auðvitað öllum ljóst að unnt er að auka mjög framleiðslu matvara með ylrækt og jarðrækt hér á landi, sem og auðvitað landeldi á fiski. Við getum þetta þrátt fyrir þá staðreynd að við búum á norðurhjara með stuttu sumri, alla jafna svölu veðri og lítilli sólarbirtu stóran hluta ársins. Það er vegna þess að kostirnir gera meira en að vega upp gallana. Við höfum nægt land, hreint loft og hreint vatn, en einnig víða nægt heitt vatn úr jörðu og loks höfum við beislað fallvötnin til raforkuframleiðslu. Þar höfum við selt megnið af raforkunni til stóriðjuvera. Í upphafi var þetta auðvitað hugsað til niðurgreiðslu á stofnkostnaði við uppbyggingu virkjana og dreifingarkerfisins.

Herra forseti. Við getum þetta. Víða eru aðilar með stórar hugmyndir eins og t.d. í Ölfusinu, Helguvík og víðar. Allt sem þarf er að skapa framleiðendum viðunandi aðstæður, og er ég að tala um verðlag á raforku sem er, eftir því sem garðyrkjubændur segja, langstærsta hindrunin til stækkunar og aukningar framleiðslunnar. Sem dæmi er verðið á kílóvattstund hérlendis til þeirra sem rækta grænmeti undir gleri, hærra en í Hollandi. Er það ekkert öfugsnúið, herra forseti?

Nei, það dugir ekki að tala sig hásan í þessum efnum. Starfsskilyrði í garðyrkju skána ekkert við. Það sem þarf er lækkun á orkuverði til þessarar framleiðslu, þessarar hollu framleiðslu, þessarar grænu framleiðslu.