151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

ríkisaðstoð til minnstu fyrirtækjanna.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að ná fullri yfirsýn yfir virkni allra úrræða á svona stuttum tíma. Ég vil t.d. varðandi lokunarstyrkina benda á að tiltekin félagsform féllu kannski ekki þar undir en tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir, sem við erum núna með í smíðum, grípa þar inn í. Ég vek athygli á því að bæði lokunarstyrkir og tekjufallsstyrkir eru með tiltekin viðmið um rekstrarkostnað sem er verið að mæta með styrkjunum. Þar er horft til þess að fyrirtæki séu með einn til fimm starfsmenn. Það er margfeldið sem við notum við útreikning á styrkjunum sem sýnir að við erum einmitt að teygja okkur sérstaklega til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Eftir því sem fyrirtækin eru stærri þeim mun minni verður styrkurinn hlutfallslega.

Að öðru leyti verð ég að benda á að bæði hlutabótaleiðin og ýmis önnur úrræði, eins og ríkisábyrgð í stuðningslánunum, geta gagnast hér. Allir nutu góðs af frestun gjalddaga sem var almennt úrræði sem allir gátu nýtt sér. Það átti líka við um aðgerðir fjármálakerfisins í heild sinni sem almennt veitti greiðslufresti og skapaði svigrúm. Það hefur m.a. sýnt sig í því að hafa bjargað því sem margir spáðu að myndi gerast núna á fyrri hluta ársins, að fyrirtækin lentu í greiðsluþroti og við myndum sjá fjöldagjaldþrot. Það var til fólk sem spáði þessu fyrir árið 2020. Við höfum ekki séð það raungerast, alls ekki. Ég held að einmitt þvert á móti hafi opinberar aðgerðir og inngrip fjármálakerfisins, m.a. fyrir tilstuðlan aðgerða Seðlabankans sem veittu miklu meira svigrúm fyrir fjármálakerfið, leitt til þess að við höfum komist í gegnum þennan gríðarlega erfiða tíma með minni áföllum heilt yfir heldur en margir spáðu. (Forseti hringir.) Eftir situr tekjufallið og það erum við að glíma við núna (Forseti hringir.) og munum koma með frumvörp á næstunni til að svara því hvernig við viljum haga stuðningi fram á næsta ár.