151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég hef auðvitað ákveðinn skilning á því að það sé erfitt fyrir hæstv. ráðherra að ganga milli bols og höfuðs á nýstofnuðu félagi áður en framkvæmdastjóri er ráðinn. En það er engu að síður þannig að mér finnst blasa við að þessi fyrstu tvö mál sem snúa að stofnbrautauppbyggingunni eru í uppnámi.

Í ágætu viðtali, sem Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu, tók við Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgönguráðherra og núverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, segir, svo ég leyfi mér að vitna í viðtalið: „Það er verið að hafna bestu lausninni.“

Þetta er setning sem virðist vera rúllandi í gegnum öll samskipti Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hvað stofnbrautauppbyggingu varðar. Þess vegna hlýtur sú spurning að vera áleitin á þessum tímapunkti: Hvað þarf til til að samgöngursáttmálinn verði raunverulega í uppnámi?