151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Í fyrsta lagi varðandi þessa aðferðafræði, þ.e. smitrakningu, þá liggur svolítið í loftinu sú spurning hvort smitrakningu hafi verið beitt í öðrum löndum með sama árangri. Af því að hv. þingmaður talar um að við gerum okkur dálítið breið í yfirskrift umræðunnar, þá hefur smitrakningu að okkur vitandi ekki verið beitt neins staðar á þann hátt sem gert er hér, þ.e. með samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu. Það sem er líka óvenjulegt er hversu snemma í faraldrinum smitrakning hófst, en við byrjuðum á smitrakningu með fyrsta tilfelli sem greindist. Ýmsar þjóðir og mörg lönd hafa farið þá leið að beita smitrakningu þegar liðið var á faraldurinn en þá er það að mati sóttvarnalæknis of seint, þannig að það er mitt svar við því.

Hv. þingmaður orðar það þannig að skólar séu meira og minna lokaðir, en það er einfaldlega ekki rétt vegna þess að leik- og grunnskólar eru að störfum. Tiltekin hólfaskipting hefur verið í efri bekkjum og það er líka tiltekin hólfaskipting í framhaldsskólum. En við viljum fara þá leið að skólastarf sé í gangi eins mikið og hægt er og það á að vera óskert í leikskóla og á yngstu stigum grunnskólans. Já, við höfum séð og höfum haft gögn um það, en ég er ekki með talnagögn um það undir þessari umræðu, að við sjáum fleiri dæmi um smit inni í skólaumhverfinu en við sáum í fyrri bylgjunni. Þar hafa komið fréttir sem borist hafa í fjölmiðla og hafa verið ræddar þar og það hefur raunar leitt til þess að krakkar hafa þurft að fara í sóttkví í stórum stíl, eins og hv. þingmaður bendir á. En með hólfaskiptingu, sem er tiltölulega nýtilkomin, ættum við ekki að þurfa að sjá það að heilu árgangarnir þurfi að fara í sóttkví, eins og við sáum hér fyrr í haust.