151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tel engan vafa á því að okkur hefur tekist einstaklega vel við smitrakningu. Við bjuggum svo vel að hafa hér risastórt fyrirtæki, alþjóðlegt fyrirtæki, til aðstoðar og þjóðin hefur staðið mjög vel saman. Þegar við fengum hins vegar þessa holskeflu yfir okkur fyrir níu mánuðum eða svo, var sagt við okkur öll að þetta væri veira sem væri komin til að vera alveg þar til bóluefni kæmi, hún kæmi í bylgjum. Og jafnframt var vitað að hættan væri fyrir mjög afmarkaðan hóp. Ég velti fyrir mér hvor verið hafi í umræðunni að þessar miklu, íþyngjandi og almennu takmarkanir við að glíma við veiruna, skyldu vera við lýði svo lengi sem þyrfti, eða þar til bóluefni kæmi, eða hvort menn hafi hugsað sér að það væru einhver takmörk á því, hvort við færum alltaf í slíkar takmarkanir um leið og ný bylgja kæmi o.s.frv. og svo væri dregið eitthvað aðeins úr því. Voru einhver mörk á því? Jafnframt vil ég gjarnan fá að vita, af því að menn vissu hvernig þetta var afmarkað við ákveðna hópa og að þetta kæmi upp aftur, hvort einhverjar hugmyndir eða aðgerðir hafi verið í farvatninu um að einblína á þá hópa, að verja þá sérstaklega, í staðinn fyrir að fara í mjög almennar og íþyngjandi aðgerðir. Því að einhver mörk hljóta að vera á þessu.