151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, vísindafólk landsins hefur unnið algjört þrekvirki í smitrakningum hér á landi en einnig allur almenningur sem svaraði kalli um að setja upp hjá sér Covid-rakningarappið og mæta í slembisýnatöku til að hægt væri að rekja ferðir þeirra og þar með veirunnar. Þau eiga hrós skilið.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í bólusetningar nú þegar þær fréttir hafa borist að bóluefni sé mögulega á næsta leiti. Það að vísindafólki hafi tekist að finna mögulegt bóluefni til að koma í veg fyrir frekara stórtjón á fólki og heilu samfélögunum vegna veirufaraldursins eru líklega bestu fréttir þessa árs og áratugar.

Nú berast þær fregnir utan frá Evrópu, hvar við eigum okkar helstu samskipti, að þar séu þjóðarleiðtogar að íhuga að skylda íbúa til bólusetningar gegn Covid-19, annars náist ekki hjarðónæmi í löndunum. Ég hef heyrt hæstv. heilbrigðisráðherra nefna það að slíkt komi ekki til greina hjá okkur. Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að slík afstaða geti mögulega haft áhrif á möguleika Íslendinga til ferðalaga um þau lönd hvar bólusetningarskylda verður sett á?

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Af hverju er einfaldlega ekki farið í það að skylda alla ferðamenn til að fara í tvöfalda skimun á landamærunum í stað svokallaðrar sóttkvíar í 14 daga sem enginn nær að fylgjast með, ekkert yfirvald? Nú þegar ríkisstjórnin hefur þar að auki tekið ákvörðun um að borga úr sameiginlegum sjóðum okkar fyrir slíka skimun, er það þá svo íþyngjandi? Þegar fólk velur að koma til Íslands þurfi það einfaldlega að lúta því að fara í tvöfalda skimun. Við sjáum tjónið sem verður þegar smit berast. Ég skil ekki alveg af hverju ekki er hægt að setja upp þessa einföldu reglu. Nú bárust tölur bara í vikunni þess efnis að þrjú smit hefðu fundist við seinni skimun hér á landi.

Mig langar svo mikið til að við náum að hemja veiruna (Forseti hringir.) en ég óttast að við náum því ekki með svona sjálfvalinni sóttkví sem enginn er að fylgjast með.