151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:08]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mikið megum við sem lifum í dag vera þakklát fyrir að lifa á árinu 2020, en það eru kannski ekki allir sammála mér að árið 2020 sé endilega svo gott ár. En farsóttir hafa áður gengið yfir heimsbyggðina. Við getum verið þakklát fyrir að það sé ekki árið 1918 þegar spænska veikin gekk yfir landið. Talið er að um 490 Íslendingar hafi látist úr þeirri veiki. Þau úrræði sem stóðu þá til boða voru m.a. að setja á samgöngubann milli landshluta og gagnrýnt var að almennir samkomustaðir hefðu ekki verið lokaðir þegar í byrjun farsóttar. Í dag árið 2020 höfum við meiri þekkingu og reynslu ásamt tækninýjungum sem hjálpa okkur við að berjast við hinn ósýnilega vágest.

Mig langar að tala um smitrakningarappið, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, en það er ein af tækninýjungunum sem við höfum nýtt okkur í baráttunni við dreifingu kórónuveirunnar. Mig langar að nýta tækifærið og þakka þeim sem bjuggu þetta forrit til og stóðu að uppsetningu þess en það voru íslensk fyrirtæki sem gáfu sína vinnu og hugbúnað til að koma því á koppinn. Ég er viss um að þetta tól hafi hjálpað okkur mikið en mér leikur forvitni á að vita hvort smitrakningarappið hafi hjálpað mikið til þegar ekki hefur verið hægt að rekja smit til ákveðins uppruna. Einhver dæmi hafa verið um það að einstaklingar hafi ekki áttað sig á hvar þeir hafa smitast. Hefur appið komið til bjargar í þeim tilfellum?