151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Kannski verður þetta efni sjónvarpsþátta og bíómynda og skáldsagna framtíðarinnar, samskipti smitrakningarteymisins við einhverja einstaklinga sem voru á einhverjum stað sem þeir áttu ekki að vera o.s.frv. Ég hef ekki verið sett inn í það í smáatriðum hvernig brugðist hefur verið við, en þó hefur mér verið tjáð með almennum hætti, bæði frá mínu fólki, landlækni og sóttvarnalækni, og svo hefur það auðvitað komið fram líka hjá yfirlögregluþjóni og þríeykinu öllu, að almennt getum við sagt að íslenskt samfélag er mjög tilbúið til að taka þátt í öllu því sem felur í sér að ná undirtökunum í baráttunni við Covid-19. Við höfum séð einstök tilvik þar sem samskiptin hafa farið úrskeiðis. Ég minnist þess t.d. þegar kom upp einhver núningur sem tengdist grímuskyldu í matvöruverslunum, en sú forgjöf sem við höfum á Íslandi með þessar stuttu boðleiðir, þetta litla samfélag, gerir það að verkum að við getum strax snúið því við. Þá hefur verið talað um að skilningurinn skapast í raun og veru bara á örfáum dögum með því að allir tala um það á nokkrum dögum. Þetta er náttúrlega ákveðinn styrkleiki sem við höfum í krafti okkar smæðar.

Það sama gildir þegar smitrakningarteymið er að hafa samband við fólk, að öllum jafnaði er fólk mjög samvinnufúst og vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að hjálpa til við að ná undirtökunum í baráttunni við Covid-19. Við sjáum það best á smittölum dagsins að við erum áfram á leiðinni niður. En við erum enn þá stödd svona sirka um miðjan apríl ef við berum bylgjuna saman við bylgjuna í vor þannig að við þurfum enn þá að halda okkar striki og gleyma ekki persónubundnu smitvörnunum.