151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

flokkun lands í dreifbýli í skipulagi.

[12:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða mjög áhugavert málefni sem varðar land, landnýtingu og margt fleira í því samhengi, kolefnisspor og annað. En aðalatriðið er: Hverjir eiga landið? Er hægt að kaupa upp heilu landsvæðin og nýta þau ekki eða nýta á einhvern hátt sem mörgum líkar ekki? Jú, því miður höfum við orðið vör við að auðmenn kaupi upp land, t.d. fyrir austan. Það er mjög slæmt vegna þess að þar þurfum við auðvitað strax að gera eitthvað.

En við þurfum líka átta okkur á því að við erum komin mjög langt á leið t.d. í skógrækt og þar höfum við mikið og margt að skoða, nýtingu skóga, hvar best er að vera með skógræktina og, það sem ég hef margoft bent á í ræðum, brunahólf. Hversu stór þurfa þau að vera? Og hvar þurfa þau helst að vera? Við þurfum að vera með hólf þannig að við séum ekki að falla í sömu gryfju og við höfum orðið vör við t.d. í Ameríku. Þar virðast skógar brenna ár eftir ár og engin lausn finnst til að stöðva það. Það hringir öllum viðvörunarbjöllum hjá mér vegna þess að það segir okkur að eitthvað sé ekki í lagi. Ég vona svo heitt og innilega og trúi því að hæstv. umhverfisráðherra sé með mjög góð plön um það og sé búinn að kortleggja það algerlega hvernig við eigum að sjá til þess að við lendum ekki í þeirri vá sem aðrar þjóðir eru að lenda í varðandi bruna skóga.