151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, um tímabundna fjölgun starfslauna og styrkja. Tilefni lagasetningarinnar er að heimsfaraldur kórónuveiru hefur komið illa við atvinnutækifæri sjálfstætt starfandi listamanna. Misjafnt er hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna með listsköpun sinni og atvinnuleysi meðal þeirra hefur aukist mjög í faraldrinum.

Meginefni frumvarpsins kemur fram í 1. gr. þess þar sem til bráðabirgða er lagt til að fjölga samanlögðum starfslaunum árið 2021 tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum samkvæmt gildandi lögum í 2.150 mánaðarlaun. Alls hækkun um 550 mánaðarlaun. Með þessu, virðulegi forseti, verður unnt að fjölga listamönnum á starfslaunum þannig að fleiri listamönnum verði gefinn kostur á að starfa að listsköpun sinni á næsta ári.

Gert er ráð fyrir samkvæmt 1. gr. frumvarpsins að hlutfallsskipting starfslauna árið 2021 taki mið af þeim listgreinum sem harðast hafa orðið úti í heimsfaraldrinum árið 2020. Því er lagt til að sviðslistafólk og tónlistarflytjendur njóti hlutfallslega mestrar hækkunar en aðrar listgreinar njóti einnig nokkurrar hækkunar. Tillagan er unnin að höfðu samráði við Bandalag íslenskra listamanna sem tók mið af könnun sem það stóð að í sumar meðal aðildarfélaga sinna.

Því er lagt til hlutfallsskipting starfslauna og styrkja til listamanna árið 2021, samkvæmt frumvarpinu, verði þannig að starfslaunastyrkir hönnuða munu svara til 75 mánaðarlauna, starfslaun og styrkir myndlistarmanna til 526 mánaðarlauna, starfslaun og styrkir rithöfunda til 646 mánaðarlauna, starfslaun og styrkir sviðslistafólks til 307 mánaðarlauna, starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda til 315 mánaðarlauna og starfslaun og styrkir tónskálda til 281 mánaðarlauna.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir að veita 225 millj. kr. tímabundið í launasjóð listamanna og er framlagið liður í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar í kjölfar áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á sjálfstætt starfandi listamenn. Heildarkostnaðurinn sem fellur á ríkissjóð kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Útgjaldabreytingar eru tímabundnar og eiga við eina úthlutun listamannalauna sem fer fram í janúar 2021.

Virðulegi forseti. Þegar samkomubann var sett á í mars síðastliðnum varð fjöldi sjálfstætt starfandi listamanna atvinnu- og verkefnalaus. Á þessu ári hefur ríkisstjórnin brugðist við með margvíslegum hætti til aðstoðar við sjálfstætt starfandi listamenn. Starfslaunum listamanna var fjölgað tímabundið úr 1.600 í 2.200 mánaðarlaun. Þá var sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki hrundið af stað til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar kom 1 milljarður kr. í hlut menningar, lista og íþrótta og af því runnu 450 millj. kr. í verkefnasjóð listamanna til aukins stuðnings á árinu umfram það sem ákveðið var í fjárlögum árið 2020.

Á þessum tíma eiga menning og listir sannarlega undir högg að sækja. Fjöldi atvinnulausra einstaklinga með listmenntun á háskólastigi hefur aukist um 164% á milli ára, er 30% meira en á íslenska vinnumarkaðnum í heild sinni. 53% listamanna sjá fram á verulega skert afkomuöryggi á næstu mánuðum og munu eiga erfitt með að standa við fjárhagslegar skuldbindingar.

Til að meta þessi áhrif á íslenskt listalíf var skipaður samstarfshópur, ásamt félags- og barnamálaráðherra, sem falið var að útfæra sérstakar og sértækar aðgerðir stjórnvalda til að mæta aðstæðum sem menningar- og listgreinar búa við. Hópurinn hefur skilað tillögum og lagt til 10 aðgerðir. Meðal þeirra er fjölgun listamannalauna eins og ég mæli hér fyrir. Einnig er meðal tillagna að bæta launatap sjálfstætt starfandi og tillagan hefur nú verið útfærð í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki. Þar geta sjálfstætt starfandi listamenn og menningartengd fyrirtæki sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli sótt um tekjufallsstyrki til að standa undir rekstrarkostnaði.

Starfsumhverfi sjálfstætt starfandi listamanna er stöðugt til skoðunar. Síðast voru sett heildarlög um listamannalaun árið 2009 í miðri efnahagskreppu þegar núverandi forsætisráðherra var mennta- og menningarmálaráðherra. Þar var tekin ákvörðun um varanlega fjölgun launa úr 1.500 mánaðarlaunum í 1.600. Aukið framboð í námi í listgreinum, ekki síst með tilkomu Listaháskóla Íslands, gerir það að verkum að fleiri sækja sér menntun í listum og gera að atvinnu sinni. Þess má sjá stað í umtalsverðri fjölgun í umsóknum um starfslaun listamanna. Við því verður að bregðast og nú er verið að vinna að tillögum um breytt fyrirkomulag listamannalauna og verkefnasjóða listamanna.

Virðulegur forseti. Með framlagningu þessa frumvarps er tekið enn eitt skrefið í að styðja við listamenn á tímum kórónuveiru. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.