151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

húsakostur Landakots og sóttvarnaaðgerðir.

[14:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að taka það fram að innri skoðun spítalans er lokið en það sem er eftir er í raun og veru rannsókn embættis landlæknis á þessari atburðarás. Hún stendur núna yfir og það er ljóst að hún tekur tíma og því miður er ólíklegt að henni ljúki fyrir áramót, bæði vegna þess hversu flókið verkefnið er og líka vegna þess hversu gríðarlegt álag er á öllu okkar kerfi vegna faraldursins, bæði í heilbrigðisþjónustunni en ekki síður hjá embætti landlæknis.

Ég vil geta þess í þessari umræðu að í ljósi þess að athugunin tekur mikinn tíma, og mun taka mikinn tíma, óskaði landlæknir sjálfur eftir fundi með mér og forstjóra Landspítala daginn sem skýrslan var birt til að við gætum farið yfir þær úrbætur sem þegar eru hafnar á Landspítala. Sumar hverjar voru þegar komnar í farvatnið þegar smit komu upp í vor. Þær aðgerðir eru allnokkrar, sumar varða aðstöðu starfsmanna, aðrar varða húsnæði, aðrar varða líka aukna varkárni við að fara milli deilda, aukin þrif og skimanir o.s.frv. Það er því ýmislegt komið í gang nú þegar.

Hv. þingmaður segir að það hafi verið heppni sem hafi bjargað okkur hingað til. Þar er ég ekki sammála hv. þingmanni. Það liggur alveg gríðarlega mikil vinna að baki því að reyna eftir fremsta megni að verja okkar viðkvæmasta fólk. Það hefur okkur sem betur fer lánast gegnumsneitt í þessum faraldri.

En þetta atvik sem hv. þingmaður vísar til er grafalvarlegt. Það olli því að fólk dó og það er hræðilegt, það er átakanlegt. En það undirstrikar kannski fyrst og fremst að þrátt fyrir miklar aðgerðir (Forseti hringir.) smokrar þessi veira sér í gegnum hvaða girðingar sem er (Forseti hringir.) og hún er ekki bara skæð heldur er hún líka lífshættuleg.