151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[15:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu um breytingu á lögum um opinber fjármál, þ.e. skilyrði um heildarjöfnuð og skuldahlutfall. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna í þessu máli. Fyrir það fyrsta ætla ég að lýsa ánægju minni með að allir nefndarmenn séu á álitinu; það er alltaf gott þegar við getum verið sammála um þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað. Það er ekki síst merkilegt þegar við erum að fjalla um grundvallaratriði líkt og það hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessu kófi. Það er ekkert sjálfsagt. Við sjáum mikil átök á milli stjórnar og stjórnarandstöðu víða í kringum okkur, menn ætla beinlínis að bíta hver annan á barkann vegna viðbragða eða viðbragðaleysis, hvort sem það er í sóttvörnum eða efnahagsmálum. Það höfum við ekki gert hér. Aðgerðir stjórnarinnar hafa batnað við gagnrýna umræðu í þessum sal, bæði vegna þess að umræðan dregur fram hversu skynsamlegar þær eru og þegar það hefur gerst að gallar hafa fundist þá höfum við tekið höndum saman og lagað þá. Þetta eru viðsjárverðir tímar og því er samstaða og eining mikilvæg og það eigum við að viðurkenna og þakka fyrir það.

Í annan stað, herra forseti, þá er það svo, eins þreytt og það er nú orðið, að síðustu tíu mánuði höfum við glímt við dæmalausa tíma. Ég leyfi mér að fullyrða að við fæst í þessum sal bjuggumst við að standa í þeirri stöðu að sjá jörðina opnast fyrir okkur og heila atvinnugrein beinlínis steypast fram af brúninni. Fleiri hundruð milljarða verðmæta sem aldrei sköpuðust í ár, milljónir vinnustunda sem ekki voru unnar; þess þá heldur að við byggjumst við því að þetta gerðist um allan heiminn samtímis, að það dræpist beinlínis á öllum vélum heimshagkerfisins nánast á sama tíma.

Þessir atburðir gerðust svo hratt að allar hagspár urðu í raun ónýtar jafnharðan og þær voru gerðar og við erum sannast sagna í dálitlu limbói enn. Fjármálaáætlunin frestaðist til haustsins þar sem það var einfaldlega ekkert vit í því að standa síðasta vor og giska út í loftið. Þótt vinur minn, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hafi haldið því fram að óvissan væri mögnuð upp, af því að það skorti fjármálaáætlun í sumar, er það svo að fjármálaáætlun eru sett mörk af óvissunni en það setur óvissunni sjálfri engin mörk. En þegar þetta gerist, þegar öll fyrri stefnumörkun í opinberum fjármálum er einfaldlega úr öðrum veruleika, þarf auðvitað að bregðast við.

Þá kem ég að því sem ég vil benda á að lokum og halda til haga í þingtíðindum. Ég stóð hér fyrir fimm árum ásamt félögum mínum í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og gagnrýndi þessa 7. gr. laga um opinber fjármál sérstaklega, að hún væri of stíf. Við vöruðum við því að hún væri gagnlítil til að draga úr þenslu og beinlínis skaðleg til að vinna úr afleiðingum niðursveiflu.

Mig langar að rifja aðeins upp það nefndarálit sem ég skilaði fyrir hönd þingflokksins á sínum tíma þar sem við fjölluðum m.a. um að skilyrðin væru ekki ásættanleg þar sem svigrúminu við beitingu ríkisfjármála, til skynsamlegrar hagstjórnar og sveiflujöfnunar, væru settar of þröngar skorður. Við töldum betra að fella 7. gr. brott og setja þess í stað ákvæði um að hver ríkisstjórn skyldi í upphafi starfstíma síns setja fram markmið í sömu efnum í ríkisfjármálunum, líkt og það sem hv. formaður fjárlaganefndar fór hér yfir áðan. Það kom fram á þeim tíma, hjá gestum nefndarinnar, að það væri betra að tengja hallaviðmiðin við sveifluleiðréttan halla þar sem það að tengja þessa hallareglu við ósveifluleiðréttan halla gæti gert ríkissjóð að sveifluvaka. Auðvitað lá það fyrir á þeim tíma að þetta 30% viðmið sem sett var byggðist ekki á alþjóðlegum viðmiðum, og Maastricht-skilyrðin t.d. gerðu ráð fyrir 60%. Skuldahlutfallsregluna, þessi 30%, töldum við vera of þrönga og ósveigjanlega og í sjálfu sér væri enginn haldbær rökstuðningur fyrir henni.

Síðan ræddum við það að frá sjónarhóli velferðarhámörkunar fyrir samfélagið væri rétt að láta skuldahlutfallsviðmiðið ráðast af horfum um vaxtakjör hins opinbera til millilangs tíma. Eins og komið hefur fram, bæði þá og nú aftur, getur þessi krafa um hallalaust fimm ára tímabil virkað hindrandi á efnahagsstjórn; er engin trygging fyrir jafnvægi og getur jafnvel verið til hindrunar því að jafnvægi náist eins og við erum kannski að upplifa núna. Við töldum líka að fimm ára viðmið væri of stuttur tími þar sem hagsveiflan gæti verið mun lengri og samdráttarskeið kunni enn að vera til staðar á þeim tíma þótt fjármálareglan krefjist aðhaldsaðgerða sem gangi gegn ríkjandi ástandi og auki því á samdráttinn. Við töldum því á þessum tíma að ekki hefði verið bent á að fjármálareglurnar legðu eitthvað til við stjórn efnahagsmála á þenslutíma eða í aðdraganda ójafnvægis en þær gætu verið til óþurftar við að vinna á afleiðingum á samdráttartíma sem fylgi í kjölfarið. Þetta er akkúrat það sem við höfum séð raungerast.

Þetta var ekki sett fram í tómarúmi. Við sem komum á þing hér á hrunárunum þekkjum hversu langan tíma það tekur fyrir afleiðingar niðursveiflu að berast t.d. til heimila, hún bítur ekki strax. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar dregið úr bitinu með því að lengja tímabil tekjutengingar og nú síðast með því að hækka atvinnuleysisbætur. Við þekkjum hversu erfitt það er að þurfa að ná frumjöfnuði á örfáum árum. Það hefði því verið afleitt að sitja uppi með kerfi sem hefði magnað upp áhrifin af þessari niðursveiflu.

Þess vegna er það mjög ánægjulegt að ríkisstjórnin ætli að breyta leikreglunum þannig að við vinnum úr þessari miklu niðursveiflu, þessu mikla höggi, á skynsamlegan hátt, með því að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að verja afkomu heimila og fyrirtækja. Þannig sköpum við viðspyrnu til að ná okkur aftur. Íslendingar eru fljótir á lappirnar, það höfum við sýnt þegar á hefur gefið og ég hef þá trú að við verðum fljótari núna en stundum áður, enda höfum við ekki fengið gengishrun og verðbólguskot í magann í kjölfarið á þessum samdrætti.

Vegna þess að það er skynsamleg stjórn efnahagsmála í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur erum við með viðspyrnu sem verður þess valdandi að við þurfum að setja ríkissjóð í töluverðan halla til ákveðins tíma. Það er sett fram með því að taka eigi það upp í næstu stefnu og áætlun, gert ráð fyrir því að byrjað verði á því 2026. En það er auðvitað framtíðarmúsík og verður að sjálfsögðu að sjá hvernig úr vinnst. Eins og við vitum þá er eiginlega fátt sem við getum spáð og spekúlerað á þessum óvissutímum fram í tímann.