151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði einmitt hvort þessi greining væri til og svarið var, að ég tel, nokkuð skýrt: Nei, hún er ekki til. Hún er bara til hvað varðar fjárhag Nýsköpunarmiðstöðvar sjálfrar. Ástæðan fyrir því að ég spyr er að hæstv. ráðherra sagði, við meðhöndlun málsins á undanförnum mánuðum, að ein af ástæðunum fyrir því að verið væri að leggja í þá vinnu að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands, dreifa verkefnunum o.s.frv., væri að það leiddi til lægri stjórnsýslukostnaðar sem myndi búa til meira svigrúm til að setja fjármagnið sem sparaðist til þeirra verkefna sem þar liggja undir. Þess vegna er ég að spyrja að þessu. Við erum að færa stjórnsýslukostnað frá einum stað, sem er í Nýsköpunarmiðstöð Íslands, á marga aðra staði, vissulega með einhvers konar samlegðaráhrifum o.s.frv. En ég var að spyrja hvert samasemmerkið þarna á milli væri. Segjum að 300 milljónir í stjórnsýslukostnað vegna NMÍ fari til ríkissjóðs, hver er þá kostnaðurinn á móti hjá öllum hinum aðilunum sem taka við verkefnum? Ég spyr af því að í útskýringum á því af hverju verið væri að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð sagði ráðherra það gert til að spara stjórnsýslukostnað. Ég hef ekki séð nein gögn um að það sé satt. Þess vegna spyr ég.