151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu andsvari mjög. Það er mjög auðvelt að benda á líkindi við Landsbanka Íslands hf. Líkindin eru þau að þegar fyrirtæki í eigu ríkisins eru hf.-vædd minnkar aðhaldið sem þau njóta og þau fara sínu fram. Þess vegna minntist ég á það sem er líklega ein mesta sóun í nútímasögu Íslendinga, að byggja höfuðstöðvar fyrir þetta ríkisfyrirtæki á dýrasta stað á Íslandi, ergo helmingi of stórt, og fara þannig inn á leigumarkað. Það er algjör nýlunda fyrir mér að það sé eitthvað sérstaklega framsækið eða nýjungagjarnt að ríkisfyrirtæki séu á leigumarkaði að keppa við einkafyrirtæki. Það er algjör nýlunda fyrir mér að það sé rosalega flott.

Ég er nefnilega alveg sammála hæstv. ráðherra um að þessi stofnun er gríðarflott og ég held að ég hafi sagt það nokkrum sinnum í ræðu minni að hún væri vel þokkuð. Jú, þar vinnur fínt starfsfólk sem hefur lagt alúð við verk sín. Ég er algerlega sammála. Þess vegna er Miðflokkurinn á móti því að leggja hana niður umhugsunarlítið eða -laust. Það er ekki mjög flókið að skýra það út.

Þessi ályktun sem ég las áðan, ég átti von á að hæstv. ráðherra myndi grípa í það að Miðflokkurinn væri ekki til í að gera neitt þegar ætti að minnka báknið og ég get alveg ítrekað þá skoðun sem ég hélt fram áðan: Nei, mér finnst það ekki framsækið að missa löggildingu bílasala út og gera þann markað ómerkilegri fyrir viðskiptavinina. Mér finnst það ekki eitthvert atriði sem sé til fyrirmyndar til að leggja niður bákn. En ef menn færu í einhver alvöruverkefni í því stendur ekki á Miðflokknum að styðja þau.