151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[18:56]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Áður en ég vík mér að efni frumvarpsins er fróðlegt að vitna til þeirrar umræðu sem var í þessum sal hinn 28. apríl árið 2000, fyrir rúmlega 20 árum, þegar mælt var fyrir frumvarpi til laga um fæðingarorlof í þeirri mynd sem við höfum þekkt þau. Það var þáverandi félagsmálaráðherra, Páll heitinn Pétursson, sem mælti fyrir því frumvarpi. Það er kannski vel við hæfi að það hitti upp á daginn í dag þegar þingheimur minntist fráfalls hans við upphaf þingfundar í morgun.

Þegar Páll mælti fyrir þessu máli á sínum tíma þá hóf hann ávarp sitt með því að segja frá markmiði laganna, sem var að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína. Hann fjallaði í framsöguræðu sinni um málið fyrir 20 árum um það að ein skýringin á kynbundnum launamun væri sú að konur væru meira bundnar heimili en karlar. Frátafir þeirra frá vinnu vegna barneigna væru því meiri en karla. Þá fjallaði hann einnig um það að forsenda þess að karlar og konur gætu tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis væri sú að þau skiptu með sér umönnun barna sinna.

Páll heitinn fjallaði einnig um ástæður þess að lögbundin skipting réttinda hefði verið ákveðin sú að festa hvoru foreldri um sig þriggja mánaða rétt til töku fæðingarorlofs í stað þess að foreldrarnir veldu sjálfir hvernig þeir ráðstöfuðu þeim mánuðum sem til skipta væru. Ástæðan var m.a. sú að stuðla að jafnri foreldraábyrgð og til að bæta hag karla enda hafi mæður áður aðallega nýtt réttinn til fæðingarorlofs þrátt fyrir að foreldrar gætu ráðstafað réttinum milli sín óhindrað. Það var mat þeirra sem sömdu þessi lög fyrir 20 árum að lögbinda þyrfti fyrirkomulagið með þessum hætti meðan réttur feðra til fæðingarorlofs væri að festast í sessi. Páll benti á að þegar reynsla væri komin á jafna foreldraábyrgð myndum við þurfa að endurskoða hvort lögbinda þyrfti áfram skiptingu orlofsins milli foreldra. Sú endurskoðun myndi byggja á því hvernig foreldrar hefðu skipt sameiginlegum rétti sín á milli og töku feðra á sjálfstæðum rétti sínum.

Síðustu 20 ár hefur Fæðingarorlofssjóður, sem haldið hefur utan um greiðslur fæðingarorlofs, safnað tölfræðigögnum um nýtingu fæðingarorlofsréttar. Þar kemur í ljós að heilt yfir nýta feður einungis sjálfstæðan rétt sinn og sá réttur sem er frjáls til ráðstöfunar milli foreldra er nýttur af mæðrum. Það liggur því fyrir að reynsla sé enn ekki komin á jafna foreldraábyrgð hér á landi að þessu leyti og því ástæða til að binda áfram rétt hvors foreldris fyrir sig.

Páll heitinn Pétursson ræddi þau atriði sem fólk hafði bent á að væru ágallar á þeim lögum sem þá voru sett. Þær ábendingar vörðuðu m.a. stöðu einstæðra foreldra. Úr þeim ágöllum hefur verið bætt og við erum jafnvel að ganga enn lengra í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Núna árið 2020 eru tuttugu ár liðin frá gildistöku gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof en í tilefni af því hafa lögin verið endurskoðuð í heild sinni af sérstökum starfshópi og er frumvarpið afurð þeirrar vinnu. Það myndaðist góð samstaða innan starfshópsins sem vann þessi lög hvað varðar þær breytingar á gildandi lögum sem fram koma í frumvarpinu eins og hópurinn skilaði frá sér. Því ber að fagna sérstaklega.

Frumvarpið, eins og það kom frá starfshópnum, var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust ráðuneytinu fjölmargar ábendingar sem unnið var úr í kjölfarið og tók frumvarpið því breytingum frá því að starfshópurinn skilaði því af sér.

Fæðingarorlofskerfið er í stöðugri mótun með hliðsjón af samfélagslegum aðstæðum hverju sinni og því mikilvægt að löggjöfin sé endurskoðuð reglulega og endurspegli þannig þá þróun sem á sér stað í samfélaginu.

Það er ljóst að þegar lögin um fæðingar- og foreldraorlof voru sett fyrir tuttugu árum þóttu þau gríðarlega framsækin, svo vægt sé til orða tekið, og enn líta aðrar þjóðir til okkar við mótun sinna reglna og þeirrar reynslu sem hefur skapast á grunni þeirra framsæknu laga sem samþykkt voru hér fyrir 20 árum.

Þrátt fyrir að verkefni fjölskyldna hafi breyst mikið frá því sem áður var samfara breyttum lífsháttum, ekki síst á síðustu árum, er umönnun og uppeldi barna þó enn í dag mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu. Við viljum áfram skapa gott umhverfi fyrir fólk sem eignast börn og veita báðum foreldrum jafna möguleika á því að njóta dýrmætra stunda með barninu sínu á fyrstu mánuðunum í lífi þess. Frumvarpið eins og það er lagt fram hér er stórt skref í þá átt.

Það er því miður samt þannig að það verður aldrei hægt að móta fæðingarorlofskerfið með þeim hætti að það falli nákvæmlega að þörfum hverrar og einnar fjölskyldu í þessu landi fyrir sig, en markmiðin eru skýr, virðulegi forseti.

Með frumvarpinu eru gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof m.a. uppfærð þannig að þau verði skýrari og aðgengilegri og eru breytingarnar hvað þetta varðar til þess fallnar að auðvelda verðandi foreldrum að átta sig á rétti sínum innan kerfisins.

Þá er í frumvarpinu lagt til að skipting á rétti fæðingarorlofs annars vegar og fæðingarstyrks hins vegar verði sem jöfnust á milli foreldra þannig að foreldrar geti nýtt sex mánuði hvort um sig en þó verði hvoru foreldri heimilt að framselja einn mánuð til hins foreldrisins.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að þessi jafna skipting á rétti foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks er í samræmi við það sem starfshópurinn var sammála um að leggja til. Að mínu mati er sú tilhögun á skiptingu fæðingarorlofsréttar milli foreldra sem fram kemur í frumvarpinu best til þess fallin að ná markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum mögulegt að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þetta fer nefnilega saman, réttindi barna og réttindi foreldra í þessu tilviki.

Í því sambandi má nefnda að niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda til þess að ábyrgð vegna umönnunar barna sé nú jafnari milli foreldra en áður var og því ber að fagna. Niðurstöður rannsóknanna sýna enn fremur að sú tilhögun að binda það í lög að foreldrar eigi sjálfstæðan fæðingarorlofsrétt hvort um sig hafi reynst árangursrík leið til breytinga hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Hvað varðar þessi tvö atriði þá fer það algerlega saman, réttindi barna og möguleikar þeirra á að vera með báðum foreldrum og rannsóknirnar sem sýna það hversu mikilvægt það er fyrir börn að ná að mynda tengingar við föður sinn líkt og móður á fyrstu vikum og mánuðum í lífi hvers barns.

Virðulegi forseti. Til viðbótar við það sem ég hef þegar rakið eru með frumvarpinu jafnframt lagðar til ýmsar breytingar frá gildandi lögum hvað varðar frekari heimildir til lengingar, framsals og tilfærslu réttinda þegar annað foreldrið getur ekki vegna tiltekinna aðstæðna nýtt rétt sinn innan kerfisins. Má þar nefna aðstæður þegar foreldri er ófært um að uppfylla skyldu sína um að feðra barn samkvæmt barnalögum, þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili sínu og þegar annað foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks hérlendis né sjálfstæðan rétt í öðru ríki.

Þá er einnig lagður til aukinn réttur til forsjárforeldris í þeim tilvikum þegar umgengni forsjárlauss foreldris við barnið er engin eða verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti, á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla.

Ég fagna þessum breytingum sem eiga það sammerkt að ákveðinn ómöguleiki er á samvistum barns við báða foreldra í fæðingarorlofi, en mikið hefur verið kallað eftir slíkum breytingum innan fæðingarorlofskerfisins. Það er óhætt að segja að margar af þeim umsögnum líka sem bárust um málið í samráðsgátt sneru akkúrat að þessum þætti. Því töldum við líka mikilvægt að bregðast við og fara betur ofan í það og var það gert á milli þess sem frumvarpið fór í samráðsgátt og þar til að mælt er fyrir því hér á þinginu.

Við framangreindar aðstæður þykir rétt að þau börn sem eiga í hlut eigi þannig möguleika á að njóta samvista við eitt foreldri í jafn langan tíma og önnur börn sem geta notið samvista við báða foreldra sína. Ég vil þó leggja áherslu á að ég tel mikilvægt að þau frávik frá meginreglunni um jafna skiptingu réttar til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks milli foreldra séu ávallt með þeim hætti að markmiðum laganna verði ekki stefnt í hættu.

Þessu til viðbótar eru í frumvarpinu lagðar til frekari breytingar á gildandi lögum og ber þar helst að nefna sérstakan styrk til foreldris sem gengur með barn vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikið réttlætismál og hefur verið kallað eftir því í mjög langan tíma að við sem samfélag komum inn sterkari inn gagnvart fjölskyldum og foreldrum sem þurfa einhverra hluta vegna að dveljast langt frá heimili sínu í aðdraganda þess að barn kemur í heiminn. Síðan erum við að auka rétt foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna fósturláts. Þar er verið að víkka út frá núgildandi lögum.

Virðulegi forseti. Í mínum huga er engum blöðum um það að fletta að það kerfi sem við höfum komið okkur upp til að auðvelda foreldrum að taka sér leyfi frá störfum í tengslum við barneignir er gríðarlega mikilvægt fyrir foreldra en ekki síður fyrir börnin sem í hlut eiga. Ég er einnig þeirrar skoðunar að fæðingarorlofskerfið sé þannig kerfi að við sem samfélag eigum að leggja áherslu á að þeir sem eiga rétt innan kerfisins nýti réttinn og nýti hann til fulls en þannig náum við þeim árangri sem að er stefnt með þessum réttindum.

Virðulegi forseti. Mér er það því sönn ánægja að kynna þetta frumvarp hér á Alþingi og legg mikla áherslu á að það verði samþykkt en það er að mínu mati mikil réttarbót fyrir foreldra og börn framtíðarinnar.

Það er gaman frá því að segja að á þessu kjörtímabili, bæði með þeirri lengingu sem þetta frumvarp felur í sér, með breytingum gagnvart einstæðum foreldrum, gagnvart landsbyggðinni og gagnvart fleiri þáttum sem ég hef nefnt hér, og samhliða þeim hækkunum á greiðslum sem gerðar hafa verið í fæðingarorlofskerfinu, þá munu í tíð þessarar ríkisstjórnar heildargreiðslurnar sem renna úr sameiginlegum sjóðum almennings fara úr 10 milljörðum í 20 milljarða á yfirstandandi kjörtímabili. Þannig að núverandi ríkisstjórn er, með þeim aðgerðum sem hún er að ráðast í, að tvöfalda það fjármagn sem fer til barnafjölskyldna í þessu landi í gegnum fæðingarorlofskerfið. Það er ég gríðarlega ánægður með og stoltur af.

Hins vegar er það svo, eins og ég sagði áðan, að það er alveg sama hvernig frumvörp er komið með sem fela í sér stórar breytingar eins og þær að tvöfalda fæðingarorlofskerfið, það verða alltaf skiptar skoðanir um einstök atriði. Ég þykist vita að í þessum sal verði skiptar skoðanir um einstaka atriði hvað varðar þetta frumvarp. Hins vegar held ég að við hljótum öll að geta fagnað því að við séum að ná að endurreisa fæðingarorlofskerfið, ná að lengja þann rétt sem foreldrar fá, allir foreldrar, frá því sem var í upphafi kjörtímabilsins, og ná að tryggja að það tvöfaldist það fjármagn sem rennur til barnafjölskyldna í gegnum þetta kerfi. Með það er ég gríðarlega ánægður.

Að lokinni þeirri umræðu sem nú mun fara fram hér, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.