151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er frábært að komið sé fram frumvarp til laga um fæðingar- og feðraorlof. En mér er spurn: Hvar er réttlætiskápan? Eruð þið búin að týna réttlætiskápunni sem þið viljið gjarnan klæða ykkur í? Einu sinni að vera með eitthvert smáréttlæti eða hysja upp um ykkur samviskubuxurnar, eru þær enn á hælunum? Hvernig dettur ykkur í hug að vera með svona mismunun? Þetta flokkast eiginlega undir fjárhagslegt ofbeldi. Hvernig er hægt að gefa það út að þeir sem þurfa mest á þessu að halda eigi að fá 83.000 kr.? Svo erum við með 190.000 kr. og síðan er ég kominn upp í 137.000 kr. og 600.000 kr. Af hverju eruð þið í þessum talnaleik? Af hverju þarf alltaf að mismuna í fjárhæðum? Hvað er að í ykkar innstu sál? Hvernig getið þið sagt við þá sem mest þurfa á þessu að halda, þá sem eru atvinnulausir og hafa engar tekjur, að þeir eigi að fá minnst, 83.000 kr.? Það er eitthvað mjög undarlegt við þetta.