151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi gólfið. En hins vegar vil ég segja að það er líka ákveðinn galli á umræðunni. þ.e. að við tölum um að þetta eigi að vera réttindabundið kerfi. Sumir í þessum sal tala um að það eigi ekki að tengja þetta við annað kynið, að þetta snúist um réttindi barnsins. Á sama tíma eru það líka réttindi þeirra barna, óháð stöðu foreldranna, að geta nýtt sér kerfið. Ef þetta er vinnumarkaðskerfi með áunnin réttindi, rétt eins og atvinnuleysistryggingakerfið, þá eru þau kerfi einfaldlega byggð upp öðruvísi. Þannig að það er ákveðinn vandi við þessa umræðu. En ég mun koma þessu til hv. þingmanns. Þegar kemur að einstæðum foreldrum vorum við að reyna að feta þá braut að opna þetta gagnvart einstæðum foreldrum, en þó ekki of mikið til að tilgangur frumvarpsins, sem er líka sá að tryggja að við feðurnir tökum fæðingarorlof, glataðist ekki. Það eru til frekari útfærslur á þessu sem unnar voru í aðdraganda málsins og verður hægt að kynna fyrir nefndinni við vinnslu þess.