151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég get tekið undir þetta. Ég er búin að vera með fjögur börn á brjósti, svo það sé sagt. En hvað um það, þetta er aðallega vangavelta um frelsi fullorðinna til að ákveða fyrir sig sjálfir. Ég skil vel að hv. þingmaður hafi verið í einhverjum sveiflum hvað það varðar vegna þess að þetta er vandrataður meðalvegur. En ég segi að númer eitt, tvö og þrjú er frelsi einstaklingsins vegna þess að ég býst við því að báðir foreldrar séu af öllu hjarta að gera það sem þeir telja virkilega að sé bæði þeim og barninu fyrir bestu. Ég er ekkert viss um að tekjuhærra foreldri, ef það er konan, fari endilega að hlaupa með barnið í vinnuna eða láta mæta með það til þess að gefa því brjóst hvar sem væri, það myndi hugsanlega frekar verða til þess að þetta barn myndi missa af því að fá brjóstagjöfina. En það er önnur saga. Ég er aðallega að hugsa um þau sem velja þetta, að það sé ekki verið að stilla þeim upp við vegg: Þú mátt bara vera í sjö mánuði og svo hitt í fimm eða hvernig sem það er. Þau megi bara ráða, hvort það er pabbinn, hvort það er mamman. Mér finnst þetta bara svo barnalegt, mér finnst þetta út úr öllu korti og takti við það sem við erum að reyna að tala um í sambandi við frelsi einstaklingsins. Hvers vegna á Alþingi Íslendinga að ákveða það hvernig foreldrar haga sínu fæðingarorlofi? Ég næ því ekki. Ég gleðst yfir 12 mánuðum en ég gleðst ekki yfir því að við skulum ætla að ákveða hvað sé barninu fyrir bestu, hvað fjölskyldunni sé fyrir bestu og hvernig foreldrar nýta sér það sem löggjafinn er þó að gera fyrir fjölskylduna, að koma á 12 mánaða fæðingarorlofi.

Ég ætlaði náttúrlega í ræðu, ég skal viðurkenna það að ég misnota virkilega aðstöðu mína með því að hoppa upp í andsvar við hv. þingmann til að reyna að koma þessu á framfæri. En ég býst við að mörgu leyti séum við sammála, ég og hv. þingmaður, en það er þessi vangavelta sem er aðallega búin að standa þversum í mér.