151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna og mjög áhugavert innlegg. Ég tek undir með henni að jafnvægið í samfélaginu, hvað varðar vinnandi hendur á hvern ellilífeyrisþega, gengur vissulega ekki upp.

Mig langaði að tala við hv. þingmann um meðalhóf og leiðir að markmiðum eins og t.d. jafnrétti. Ef við hefðum tvo valmöguleika, boð og bönn eða jákvæða hvata, til að stuðla að jafnrétti, væri ekki betra að vinna að jákvæðum hvötum frekar en að setja fólk inn í þennan kassa? Allir þurfa að geta passað inn í hann, sérstaklega ef grundvöllurinn á að vera að tryggja rétt barnsins til samvista við foreldrið. Ég heyrði hv. þingmann tala ansi mikið um rétt foreldranna. En er hún ekki sammála því að það er auðvitað grundvallarréttur barnsins að vera í samvistum við foreldra sína? Það er ekki endilega alltaf hægt að gera það jafnt. Með nálguninni í þessu frumvarpi er ríkisvaldið svolítið að segja foreldrum hvernig þetta eigi að vera, það eigi að vera hnífjafnt algjörlega burt séð frá aðstæðum hvers og eins, til að tryggja að feður taki meiri þátt í uppeldi barna sinna og séu líklegri til að taka fæðingarorlofið.

Hv. þingmaður minntist líka á að karlar eru litnir hornauga ef þeir nýta meira en þennan sjálfstæða rétt og konur kannski sömuleiðis ef þær nýta ekki sinn fulla rétt. Væri þá ekki rétt, þegar byrjað er að virkja jákvæðan hvata gagnvart atvinnulífinu og fólkinu þar, að hætta þessum kreddum? Getum við ekki unnið að þeim sömu markmiðum án boða og banna og frekar með jákvæðum hvötum?