151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna sem hefur verið um þetta mikilvæga mál í kvöld. Það hafa verið fluttar margar prýðilega góðar ræður og það hefur verið fróðlegt að fylgjast með. Það er ánægjulegt að finna að í salnum er ánægja með þá aðgerð sem verið er að ráðast í á þessu kjörtímabili sem er endurreisn fæðingarorlofskerfisins, þessi 10 milljarða endurreisn, tvöföldun fæðingarorlofskerfisins á kjörtímabilinu sem felst m.a. í því að við erum að hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Í október 2016 voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 370.000 kr. Í dag eru þær 600.000 kr. Þegar þessi ríkisstjórn tekur við er fæðingarorlofið níu mánuðir. Með frumvarpinu erum við að lengja það í 12 mánuði. Það eru stóru breytingarnar sem þessi ríkisstjórn er að koma til leiðar og það er ég gríðarlega ánægður með.

Eðlilega hefur verið mikil umræða um skiptinguna á þessari lengingu, 12 mánaða fæðingarorlofi. Menn hafa hér í kvöld skipst á skoðunum á því hvað sé talið heppilegt hvað það snertir. Þegar lögin voru samþykkt fyrir 20 árum var talað um þessa skiptingu og þá fór fram nákvæmlega sama umræðan í þessum sal eins og nú um af hverju ákveðið hlutfall væri eyrnamerkt öðru foreldrinu. Þá sagði þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, það vera til að stuðla að jafnri foreldraábyrgð, til að bæta hag bæði barna og karla, til að tryggja að börn fengju að njóta samvista við bæði móður og föður á fyrstu vikum og mánuðum í lífi sínu og til að taka risastórt skref í jafnréttismálum, vegna þess að þetta fer saman. Þá var líka talað um að þegar reynsla kæmist á þetta, fullt foreldrajafnrétti næðist og þar með væru réttindi barna tryggð alveg eins og jafnréttið, væri sjálfsagt að taka skiptinguna til endurskoðunar.

Við erum svo heppin að síðustu 20 ár höfum við safnað tölfræðigögnum um hvernig þessu hefur undið fram og í dag er staðan sú að feður taka ekki meira að jafnaði en sem nemur fasta réttinum. Allt sem er færanlegt á milli taka mæðurnar. Rökin sem lögð voru fram til grundvallar fyrir 20 árum, að þegar fullt foreldrajafnrétti næðist væri hægt að endurskoða þessa skiptingu, eiga því enn við í dag. Við höfum ekki uppfyllt þau og erum þar af leiðandi hvorki að ná fullu jafnrétti né að tryggja réttindi barnsins. Það fer líka saman. Þetta eru sömu réttindin.

Við erum hins vegar að tryggja ákveðinn sveigjanleika. Þó að við séum í sex, sex er mögulegt að fara í sjö, fimm með því að flytja einn mánuð á milli. Margar umsagnir sem bárust um málið í samráðsgátt lutu einmitt að því að auka síðan sveigjanleikann. Þar voru sérstaklega nefndir einstæðir foreldrar. Í þeim umsögnum sem bent hefur verið á í kvöld var sérstaklega fjallað um einstæða foreldra. Við tókum á því áður en málið kom inn til þingsins og við jukum sveigjanleikann þar. Þar var talað um tímalengdina, styttingu frá 24 mánuðum í 18 mánuði. Það var gagnrýnt. Við tókum á því líka og jukum þann sveigjanleika. Það beindist að mestu leyti að stöðu einstæðra foreldra líkt og hv. þingmaður og forseti Alþingis benti hér á að er í 9. gr. frumvarpsins. Það er líka vandasamt vegna þess að ef menn ætla að setja svo mikinn sveigjanleika í málið að skiptingin sé ekki lengur sex, sex eða fimm, sjö, eftir því hvernig menn leika sér með það, þá er bara heiðarlegra að fara í núll, núll, tólf. Sveigjanleikinn á að nýtast þeim fjölskyldum, þeim einstaklingum, einstæðu foreldrum, sem hafa ekki aðstæður til að skipta þessu jafnt á milli. Við höfum aukið þann sveigjanleika. Ég hef lýst því yfir að ég sé tilbúinn til frekara samtals við nefndina. Ráðuneytið er tilbúið að skoða hvort hægt sé að ná betur utan um einstaka dæmi hvað þetta snertir án þess þó að tapa kjarnanum í frumvarpinu sem er sami kjarninn og var fyrir 20 árum þegar Páll heitinn Pétursson mælti fyrir frumvarpinu hér í þessum sal og Alþingi Íslendinga samþykkti það.

Það er líka meiri sveigjanleiki í lögunum vegna þess að annað foreldrið, í þessu tilfelli móðirin sem gengur með barnið, á möguleika á að fá tvo mánuði aukalega í aðdraganda fæðingar. Sá sveigjanleiki er innbyggður ef þörf er á því án þess að það skerði önnur réttindi. Hún á líka möguleika á að fá tvo mánuði eftir fæðinguna ef það verða eftirkvillar eða andleg veikindi, fæðingarþunglyndi og fleira sem getur gerst eftir fæðingu. Það bætist við þessa sex til sjö mánuði sem eru til skiptanna, þ.e. sex mánuðina sem geta farið upp í sjö ef menn nýta fimm, sjö. Við erum komin í tíu til ellefu mánuði þegar þær aðstæður eru til staðar. Við erum því að skapa sveigjanleika í lögunum en um leið erum við að halda í þessi grunngildi.

Í umræðum í kvöld var látið í það skína að ríkisstjórnin hefði gefist upp á að brúa bilið. Það er auðvitað af og frá. Ég hef rakið það hér í kvöld að ríkið er að teygja sig þrjá mánuði að sveitarfélögunum og helmingur sveitarfélaga í landinu hefur teygt sig þangað. Það er hinn helmingur sveitarfélaganna í landinu sem er ekki að ná því. Við þurfum því að beina því til sveitarfélaganna að teygja sig lengra. Við gerðum tilraun til að eiga samtal við sveitarfélögin um það. Ekki var full samstaða um það meðal sveitarfélaganna vegna þess að helmingur þeirra var ekki með það á sinni dagskrá. Það verður verkefnið áfram. En að ríkisstjórnin, sem er í 10 milljarða aðgerð, hafi gefist upp á að teygja sig að sveitarfélögunum til að aðstoða við að brúa bilið er af og frá. Það er alla vega ansi lítið bil orðið eftir að brúa vegna þess að það þarf bara að brúa gagnvart helmingi sveitarfélaganna og við höfum byggt þrjá mánuði í þessa brú.

Síðan vil ég segja að ég trúi því að þegar horft verður á þessi lög í samspili við lögin sem samþykkt voru fyrir 20 árum og við sjáum jákvæð áhrif þeirra þá munu þau eldast jafn vel. Ég trúi því líka að við getum stigið stærri skref. Ég trúi því að í framhaldi af þessum lögum séum við tilbúin sem þjóð til að taka enn stærri skref þegar kemur að málefnum barna, málefnum fjölskyldna og barnafjölskyldna. En þetta skref er gríðarlega stórt. Það er ekki sjálfgefið. Það er ekki sjálfgefið að á einu kjörtímabili sé mögulegt að tvöfalda að umfangi kerfi eins og fæðingarorlofskerfið. Við erum að fara úr 10 milljörðum í 20 milljarða á einu kjörtímabili með því bæði að hækka greiðslur og lengja orlofið. Ég segi bara geri aðrir betur og af því er ég gríðarlega stoltur. Eðlilega eru atriði sem mættu betur fara en þá tökum við það í næsta slag. Það skal enginn geta sagt að þessi aðgerð sé ekki stór og mikilvæg þó að það séu atriði sem mættu betur fara.

Ég vil síðan þakka heilt yfir fyrir gríðarlega góða og málefnalega umræðu og heiti því að bæði ráðherrann og ráðuneytið munu vinna þétt með hv. velferðarnefnd að vinnslu málsins. Vonandi getum við náð að afgreiða það í tæka tíð þannig að þær fjölmörgu góðu réttarbætur sem fylgja þessum breytingum geti tekið gildi fyrir fjölskyldur þessa lands strax frá 1. janúar næstkomandi.