151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

meðferð einkamála.

100. mál
[23:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Örstutt einmitt um málsmeðferð þingsins á tiltölulega litlum málum sem sitja inni þing eftir þing og ætti í raun ekki að taka mjög langan tíma að afgreiða, af því að þetta er þegar allt kemur til alls ákveðið prinsippmál. Þetta er ekki vandamál hvað varðar kostnað fyrir ríkissjóð eða neitt svoleiðis heldur eru þetta réttindamál. Þetta eru ekki mál sem þarf endilega endalausar gestakomur fram og til baka í nefndinni, umsagnir að sjálfsögðu, en það ætti að vera tiltölulega auðvelt að afgreiða mörg af þessum málum á nokkuð fljótlegan hátt sem einhverra hluta vegna er ekki gert, sérstaklega ef málin eru minnihlutamál, meira að segja þó að það séu þingmannamál meiri hlutans. Það er, held ég, eitthvað sem við þurfum að taka aðeins betri umræðu um á þingi. Við þurfum að fara yfir mörg af þessum þingmannamálum og hugsa um að það eru mjög mörg góð þingmannamál sem komast ekki neitt af einhverjum stórkostlega undarlegum ástæðum. Ég hef orðið var við það að mál sem ég var að flytja komst ekki út úr nefnd af því að einn í nefndinni sagði bara: Nei, mér finnst að við ættum að skoða þetta meira. Þrátt fyrir að allir aðrir hafi verið tilbúnir til að hleypa málinu inn í þingsal. Og það snerist um ákveðna skiptingu milli þingflokka. Ef einn flokkur fær fimm mál í gegn í þingsal þá verða allir hinir líka að fá alla vega fimm mál. Þegar allt kemur til alls þá er það ekki 1. flutningsmaður eða svoleiðis sem skiptir máli. Það er hvort þingið ákveður að segja: Já, þetta er réttindamál. Já, við tökum öll heiðurinn af því að klára það. Ég nefni t.d. oft þingsályktunina mína um rafrænar smiðjur. Ég og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir unnum saman. Það var því miður ekki hægt að hafa nema einn flutningsmann á því en þegar allt kom til alls þá eignaði Alþingi sér þá tillögu, bætti við, gerði hana betri, jók við áhrifasvið hennar og því um líkt. Jafnvel þótt ég og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hefðum átt hugmyndina að tillögunni og komið henni til þingsins þá á þingið þá tillögu skammlaust, enda greiddu allir þingmenn atkvæði með þeirri tillögu. Ég held að við ættum að gera meira af því að gera svoleiðis hluti saman, með mál sem eru svona augljós. Við getum bara gengið hringinn og sagt: Er þetta ekki mál sem við ættum að klára saman og gera landið betra fyrr frekar en seinna?