151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

bætt stjórnsýsla í umgengnismálum.

104. mál
[23:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til þess að styðja þetta mikilvæga mál og undirstrika mikilvægi þess að við tryggjum að barnasáttmálinn hafi gildi í öllum ákvörðunum stjórnvalda, í allri lagasetningu sem snýr að börnum. Ég get varla hugsað um atriði sem skiptir meira máli fyrir réttindi og hagsmuni barna en umgengni við foreldra sína, það að umgengnismál séu skýr, að börn séu ekki neydd til að umgangast foreldri sem þeim stafar hætta af og það sé tryggt að það sé hlustað á vilja barna þegar kemur að umgengnismálum. Við vitum það af mörgum nýliðnum dæmum, frásögnum í fjölmiðlum, sérstaklega í Stundinni, að það er því miður allt of algengt að ekki sé hlustað á börn og þau séu neydd til umgengni við ofbeldisfullt foreldri, að börn séu neydd út í aðstæður sem hafa virkilega og verulega skaðleg áhrif á líðan þeirra og framtíð. Við stöndum okkur alls ekki nógu vel þegar kemur að því að tryggja réttindi barna í umgengnismálum. Það er bara alveg á hreinu. Við sjáum það á málsmeðferðartímanum, við sjáum það á máttlitlum úrræðum, við sjáum það á frásögnum barna sem segja frá þvinguðum samvistum, þvingaðri umgengni við ofbeldisfullt foreldri. Við sjáum það á þeim grunni að það er ekki hlustað á börn, ekki passað upp á vilja þeirra, ekki passað upp á að börn séu ekki yfirheyrð án þess að þau hafi einhvern nákominn, einhvern stuðningsaðila, með sér.

Virðulegi forseti. Þetta er virkilega mikilvægt mál og ekki seinna vænna, enda hafa umgengnismál og forsjá barna verið mikið í umræðunni og hafa margir vilja fara í einhverjar harðar aðgerðir í þessum efnum, það átti að fangelsa foreldra og ég veit ekki hvað og hvað, en mikilvægast er að við séum bara með eðlilegt og gott kerfi sem hefur hagsmuni barna að leiðarljósi, gerir það sem börnum er fyrir bestu, hlustar á börn og hefur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem sitt leiðarljós í allri sinni starfsemi. Þetta er svo borðleggjandi að við hljótum að samþykkja þetta í þetta skiptið.