151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[16:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í svona djúpri kreppu er helsta hættan að of lítið sé gert. Það eru ráðleggingar eiginlega allra sérfræðinga. Þá er einnig mælt með að ríki taki langan tíma í að greiða niður Covid-halla. Samfylkingin hefur kallað eftir miklu myndarlegri innspýtingu en fjárfestingarátaki upp á 1% af landsframleiðslu en það er átak þessarar ríkisstjórnar, ef átak skyldi kalla.

Þetta frumvarp aftengir hinar ströngu fjármálareglur en bara tímabundið. Við styðjum aftengingu en við viljum halda því miklu opnara að aftengja reglurnar í lengri tíma en hér er gert. Einnig er ekkert víst að skuldasöfnun verði stöðvuð eftir fjögur ár eins og hér er stefnt að. Kannski þurfum við að skuldsetja okkur þá til að reka spítala eða skóla eða landhelgisgæslu. En meira að segja það virðist vera þessari ríkisstjórn ofviða.

Herra forseti. Við viljum ríkisstjórn sem mildar höggið í lengri tíma en hér er stefnt að.