151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:08]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér um nýtt sóttvarnafrumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra sem skerpir enn frekar á þeim reglum sem nú eru í gildi og byggja á álitsgerð Páls Hreinssonar. Ég vil taka það fram að það er mat þeirrar sem hér stendur að mikilvægt sé að málið komi nú inn til þinglegrar meðferðar, enda kemur fram í áliti Páls að það sé einmitt nokkuð aðkallandi að Alþingi fari í þessar breytingar á sóttvarnalögum. Út á það er því ekki að setja að mínu mati.

Hins vegar er ákvæði í frumvarpinu sem stingur aðeins í stúf við annað sem kemur þar fram og það er ákvæði um útgöngubann. Það er eitthvað sem við höfum sem betur fer ekki þurft að upplifa enn sem komið er vegna sóttvarnaaðgerða hér á landi og því finnst mér kannski ekki líta út fyrir að það sé jafn aðkallandi. Ég hef heyrt það rökstutt. Mig minnir að sóttvarnalæknir hafi sagt að ástæðan fyrir því að ekki hafi verið talið nauðsynlegt að setja á útgöngubann hér hafi fyrst og fremst verið vegna lifnaðarhátta okkar Íslendinga, hvernig við búum o.s.frv., sem séu bara allt annars eðlis heldur en t.d. í stórborgum. Sú ákvörðun að setja ekki á útgöngubann hér á Íslandi virðist hafa verið tekin á mjög málefnalegum grunni.

Í álitsgerðinni segir, herra forseti:

„Eftir að á þanþol gildandi sóttvarnalaga hefur reynt í Covid-19 faraldrinum sem geisað hefur á Íslandi er eðlilegt að uppsöfnuð reynsla sé vegin og metin og gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum í hennar ljósi þannig að stjórnsýsla sóttvarna sé betur í stakk búin til að mæta næsta faraldri.“ — Í næsta faraldri, ekki næstu bylgju, ég vil benda á það. — „Áður en í þessa heildarendurskoðun verður ráðist er rétt að bæta strax úr helstu ágöllum sem á lögunum eru, m.a. til að tryggja að sóttvarnayfirvöld hafi allar nauðsynlegar valdheimildir.“

Ég tel að frumvarpið sem við ræðum geri það að næstum því öllu leyti nema þessu með útgöngubannið. Ég set stórt spurningarmerki við það. Þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að fara í strax, og Páll hefur tíundað í sinni álitsgerð, eru t.d. lögskýringar á helstu hugtökum sem þurfa að vera á hreinu, svæðaskipting sóttvarna og hvort hún eigi betur heima í lögum eða reglugerð og fleiri þættir eins og það að geta skotið því til dómstóla ef fólki finnst það sett í sóttkví með óréttmætum rökum o.s.frv. Þetta þarf allt að gera enda segir í álitsgerðinni að það þurfi.

Nú höfum við staðið í þessu saman sem þjóð síðustu níu, tíu mánuði. Það hefur verið alveg rosalega sterk og góð samstaða í samfélaginu. Hún hefur verið til algjörrar fyrirmyndar að mestu leyti. Fólk hefur tekið þetta alvarlega, hefur tekið líf og heilsu annarra jafn alvarlega og sína eigin, sýnt umburðarlyndi, þrautseigju og langlundargeð og sýnt að þjóðin er að hlusta á sóttvarnayfirvöld, hlusta á stjórnvöld og bregðast við orðum þeirra og ábendingum. Þessi samstaða er mjög mikilvæg þegar á reynir eins og í heimsfaraldri þeim sem nú gengur yfir. Fari þetta frumvarp í gegn eins og það er núna, óbreytt, hef ég áhyggjur af því að ákvæði um útgöngubann myndi mögulega draga úr þessari samstöðu. Í fyrsta lagi er þetta, eins og áður segir, úrræði sem hefur ekki verið notað hér áður, ekki hefur þurft að reyna á það síðustu mánuði og þetta er miklu dramatískari aðgerð, miklu meiri frelsissvipting en nokkrar aðgerðir sem sóttvarnayfirvöld hafa þurft að beita.

Allar líkur eru á því að í kringum það yrði miklu pólitískari umræða, miklu meira pólaríserandi umræða. Mér finnst það óþarfi, herra forseti, vegna þess að ekki er allt þarna alveg rosalega aðkallandi, eins og kemur fram í álitsgerðinni hjá Páli. Það mætti til að mynda skipta frumvarpinu í tvennt, gera þær breytingar sem mér sýnist og heyrist að flestir séu alveg sammála um og taka hitt til hliðar og geyma þangað til að þetta er yfirstaðið. Komi upp sú aðstaða, sú krísa, að sóttvarnayfirvöld og ráðherra líti svo á að það verði hreinlega að grípa til þeirra aðgerða að setja á útgöngubann má vegna reynslunnar alveg færa rök fyrir því að það yrði ekkert vandamál vegna þeirrar samstöðu sem þjóðin hefur sýnt og einnig vegna þess að þá getur þingið komið saman — það tekur ekkert óskaplega langan tíma — og sett einhvers konar neyðarlög, komi til þess.

Ég myndi því bara virkilega vilja ræða hvort það sé í grunninn nauðsynlegt að útgöngubannið sé þarna inni. Eins sjáum við að í þeim samkomutakmörkunum sem eru í gildi hafa tilkynningar um heimilisofbeldi aukist. Það er náttúrlega hliðarverkun sóttvarnaaðgerða sem er mjög hvimleið og sorgleg. Ég held að við séum flest sammála um að það hafi þurft að fara í þessar aðgerðir en eftir því sem á líður sjáum við betur nákvæmlega hverjar hliðarverkanirnar af hertum sóttvarnaaðgerðum eru. Það er alveg gefið mál að útgöngubann myndi ekkert bæta hvað þetta tiltekna atriði varðar og það ætti algjörlega í lengstu lög að reyna að koma í veg fyrir að gripið sé til þess úrræðis.

Hvað varðar eftirlitshlutverk þingsins mætti það vera mun virkara. Þá er ég ekki að tala um að það sé í einu og öllu og sóttvarnayfirvöld hafi ekki heimildir til að grípa inn í eins og þau sjá nauðsyn til heldur að þingið sé upplýst um ákvarðanatöku og forsendur hennar með reglulegra millibili. Þetta er eitthvað sem væri jákvætt og myndi bara auka á samstöðu, samtal og upplýsta afstöðu til málanna, bæði á þingi og úti í samfélaginu.

Ég vil ítreka að mér finnst ánægjulegt að verið sé að fara í þessar nauðsynlegu aðgerðir. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gefið til kynna að hún sé tilbúin til að hlusta á þingið í þessum efnum og vinnuna í hv. velferðarnefnd, sem sú sem hér stendur situr í. Ég vona að það verði gott og ánægjulegt samtal um þessa hluti og ég hlakka til að vinna málið áfram. En ég ítreka: Mér finnst útgöngubannið óþarfi á þessu stigi málsins.