151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom aðeins fram í orðaskiptum okkar hv. þingmanns hér áðan þá kemur sérstaklega fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Við vinnslu á frumvarpinu var gert sérstakt mat á áhrifum á persónuvernd. Niðurstaða matsins var að frumvarpið hefði jákvæð áhrif á grundvallarréttindi og hagsmuni skráðra einstaklinga. Sóttvarnaráðstöfunum kann að fylgja umfangsmikil vinnsla persónuupplýsinga, bæði almennra og viðkvæmra, og því mikilvægt að heimildir sóttvarnayfirvalda séu skýrar. Skýrar heimildir tryggja skilvirkni við beitingu heimilda og gera vinnslu fyrirsjáanlegri og gagnsærri fyrir hina skráðu.“

Þetta er í raun og veru grein af sama meiði og þegar við erum að tala um mikilvægi þess að vera með skýrt lagaákvæði um útgöngubann. Það er bara mjög mikilvægt að löggjafinn tali skýrt í þessum efnum til að framkvæmdarvaldið sé alveg klárt á því hverjar grundvallarreglurnar séu.