sóttvarnalög.
Forseti. Þetta frumvarp er komið fram til að laga ýmislegt sem þarf að laga í sóttvarnalögum núna, t.d. þarf að skýra ákveðin hugtök, hvað þau raunverulega þýða, til þess að ekki sé hægt að beita þeim án þess að vera á nógu sterkum lagalegum grundvelli, tryggja að það séu ekki tveir aðilar ábyrgir fyrir sömu verkum, skýra ábyrgðarkeðju og ýmislegt sem er nauðsynlegt. Þetta kemur fram í álitsgerð dr. jur. Páls Hreinssonar, sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallað um á opnum fundum með Páli í síðasta mánuði eða fyrir sex vikum eða svo. Hann segir að það sé nauðsynlegt að fara í þessar breytingar, fyrir þá sem hafa áhuga á því þá er þetta 12. liður neðst á bls. 48 í álitsgerð Páls, þar sem hann talar um atriði sem ástæða sé til að taka til athugunar við endurskoðun á sóttvarnalögum. Þar fer hann í lögskýringar á helstu hugtökum laganna, hvort svæðaskipting sóttvarna eigi betur heima í lögum eða reglugerð. Hann segir að það sé frelsisskerðing ef fólk sé sett í sóttkví og ef það vill ekki þá sóttkví hafi það vernd í 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, um að fara með það fyrir dómara. Þetta allt er verið að setja inn í lögin. Það er verið að skýra þau. Það er verið að gera ábyrgðarkeðjuna skýrari og það er verið að tryggja réttindavernd. Þetta er þáttur sem allir eru sammála um að sé nauðsynlegt að gera.
Svo eru það hlutir eins og útgöngubann, sem Páll minnist ekki á. Í lokin á þessum kafla um lagabreytingar sem þurfi að ráðast í varðandi breytingar á sóttvarnalögum þá segir Páll, með leyfi forseta:
„Áður en í þessa heildarendurskoðun verður ráðist er rétt að bæta strax úr helstu ágöllum sem á lögunum eru, m.a. til að tryggja að sóttvarnayfirvöld hafi allar nauðsynlegar valdheimildir.“
Það sem ég var að nefna er þetta nauðsynlega. Það er ekki heildarendurskoðunin. Páll talar líka um að til þess að við séum í stakk búin til að mæta næsta faraldri þurfi að fara í þessa heildarendurskoðun.
Það eina í þessu frumvarpi sem ég vil benda á að væri farsælla að taka út og skila aftur til ráðherra er útgöngubann. Það hefur ekki reynst nauðsynlegt og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, þar sem talað er um það sem hefur verið gert erlendis, með leyfi forseta:
„Til þessa úrræðis hefur ekki verið gripið hér á landi vegna Covid-19-faraldursins, og ekki þótt tilefni til, en því hefur verið beitt víða erlendis, til að mynda í flestum ríkjum Vestur-Evrópu, utan Norðurlandanna.“
Þannig að þar hefur ekki þótt tilefni til. Nú er bóluefni á næsta leiti, við erum búin að tryggja okkur bóluefni eins og ráðherra hefur verið að kynna fyrir okkur. Síðast þegar ráðherra kynnti þetta fyrir okkar í þinginu voru þau tvö og þriðja á leiðinni, ég held að við séum komin með þrjú núna. Það hefur ekki verið tilefni til að nota útgöngubann og nú erum við mögulega á leiðinni út úr faraldrinum, fólk sér alla vega ljósið á endanum, þannig að ég sé ekki tilefni til að slík heimild sé til staðar núna í þessum faraldri.
Það að setja hana inn núna hefur tvö neikvæð atriði í för með sér. Eitt er það að þetta krefst miklu meiri umræðu og yfirlegu í samfélaginu, hvort við ætlum að búa í samfélagi sem heimilar þetta. Þar af leiðandi fer fólk að skipta sér í hópa og fylkingar hvað það varðar. Það tefur hin atriðin sem ég var að nefna, sem Páll segir að nauðsynlegt sé að fara í áður en heildarendurskoðunin eigi sér stað. Það tefur vinnuna við þau atriði.
Sviðsmyndirnar sem ég sé varðandi vinnslu á þessu máli eru þrjár. Ein er sú að útgöngubannið sé áfram inni og öll sú umræða sem þarf að eiga sér stað í samfélaginu og öll sú neikvæða umræða, fylkingar sem fólk skipar sér í o.s.frv., sem á eftir að tefja þessi nauðsynlegu atriði. Önnur sviðsmyndin er sú að það verði keyrt áfram með þessi nauðsynlegu atriði, en líka þetta atriði sem ætti betur heima í heildarendurskoðuninni. Þar af leiðandi verður umræðan ekki nóg. Það á líka eftir að valda misklíð í samfélaginu. Þriðja og eina farsæla sviðsmyndin sem ég sé í þessu er sú að útgöngubannið sé með breytingartillögu bara tekið út úr frumvarpinu og því atriði vísað til heilbrigðisráðherra á þeim forsendum að biðja um að fá heildarendurskoðun á sóttvörnum sem er nauðsynleg og Páll segir að þurfi að fara í. En það er ekki þetta brýna atriði sem við þurfum núna. Við þurfum ekki útgöngubann núna til þess að takast á við Covid-19. Við höfum ekki þurft þess, það kemur fram í frumvarpinu, og við þurfum það ekki þar sem við horfum inn í framtíðina með bóluefni á næsta leiti.
Ég held að það væri langfarsælast að gera þetta svona, fara eftir þeirri sviðsmynd að útgöngubannið fari út með breytingartillögu í samstöðu í þinginu, ráðherra taki þann bolta, vinni þetta inn í heildarlagabreytingu og við klárum hitt sem nauðsynlegt er til að tryggja að lagastoðir séu skýrari, eins og Páll Hreinsson benti á, þau atriði sem við erum sammála um. Það er það sem ég myndi vilja beina til ráðherra, sem ætlar að koma í andsvar við mig. Hvernig líst ráðherra á þessar sviðsmyndir? Sýnist henni eins og mér, að farsælasta sviðsmyndin sé þessi þriðja, hún fái útgöngubannið til sín og vinni það inn í meiri heildarpakka en við klárum hitt fyrst? Við getum þá gert það hratt í þinginu.