151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

almannatryggingar.

89. mál
[19:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Maður er nú ekki að koma hér í fyrsta skipti til að berjast fyrir lítilmagnann og þá sem þurfa að reiða sig á framfærslu almannatrygginga. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Með mér á frumvarpinu er minn góði þingflokksbróðir og samstarfsmaður, Guðmundur Ingi Kristinsson. Í þessu frumvarpi erum við sem sagt að stíga fast niður varðandi 69. gr. laga almannatrygginga, sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson vísaði til áðan og við höfum margtalað um hér. Við viljum að greinin orðist svo:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Það stendur í rauninni í 69. gr. og þess vegna höfum við í Flokki fólksins verið að skoða það lögfræðilega að fara hreinlega í mál við íslenska ríkið fyrir hönd almannatryggingaþega sem við teljum að þessi 69. gr. hafi verið brotin á, því að það stendur í greininni sem slíkri að öll framfærsla og leiðrétting framfærslu eigi að fara í takt við launavísitölu. Staðreyndin er jú sú að gjáin hefur alltaf breikkað. Nú hefur kjaragliðnunin hjá langefnaminnsta hópnum í landinu, þeim sem þurfa að reiða sig á strípaða framfærslu almannatrygginga, gliðnað um hvorki meira né minna en ríflega 29% síðustu ár. Þetta er eiginlega með hreinum ólíkindum. Við höfum ákveðið að þessi grein verði það skýr að það verði engum vafa undirorpið að löggjafinn, og hver sem situr hverju sinni í ríkisstjórn og heldur um stýrið, geti hreinlega ekki eftir geðþótta gengið inn í vísitölu neysluverðs af því að hún kemur betur út fyrir ríkissjóð og almannatryggingakerfið, af því að þá þurfa þeir að greiða miklu lægri framfærslu til einstaklinganna sem þeir eru búnir að negla inn í fátæktargildruna. Að hugsa sér, ef þetta er ekki mannvonskukerfi þá veit ég ekki hvað það er.

2. gr. í frumvarpinu segir að 7., 12., 15. og 17. töluliðir ákvæðis til bráðabirgða í lögunum falli brott.

3. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020“, sem sagt á næsta ári þegar við teljum fram vegna tekna ársins 2020.

Ég ætla að lesa aðeins upp úr greinargerð með frumvarpinu, sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Í umsögnum sem velferðarnefnd bárust við meðferð málsins á því þingi var almennt lýst ánægju með efni frumvarpsins. Hver hlustar nú á svoleiðis þegar einhver stjórnarandstöðuflokkur fær umsagnir fyrir fastanefnd sem lýsir jafnvel ánægju sinni og rökstyður og hvetur jafnvel til dáða og hvetur til þess að nákvæmlega þetta mál nái fram að ganga á hinu háa Alþingi?

Nei, virðulegi forseti, eins og við þekkjum sem erum í stjórnarandstöðu, er alveg sama hvort við mælum hér fyrir 30 málum, 40 málum eða 50 málum, þau eru algerlega lítilsvirt og fótumtroðin að mestu leyti og koma ekki inn í 2. umr. nema við berjumst fyrir því með kjafti og klóm þegar við erum annaðhvort að ljúka þingstörfum fyrir sumarleyfi, jólafrí eða páska, það er þá sem stjórnarandstaðan reynir að nota þau verkfæri að reyna að semja um mál. Að hugsa sér. Þó að öll mál séu frágengin í nefndum, þó að búið sé að draga inn umsagnaraðila fyrir nefndirnar, allir hafa fengið að koma og rökstyðja umsagnir sínar og fylgja þeim eftir, allt klappað og klárt fyrir 2. umr. í þingsal. En nei.

Þetta hefði kannski átt heima undir störfum þingsins, en svona eru raunverulega störf þingsins. Það er alveg með hreinum ólíkindum að þurfa að horfast í augu við það.

Ég hefði nú ætlast til þess og hefði ímyndað mér það, a.m.k. Flokkur fólksins — maður var svo bláeygur með sín brúnu augu að maður hefði jafnvel ímyndað sér að hér ríkti alvörulýðræði, að við fengjum að taka þessi mál inn í þingið, sem eru tilbúin til frekari umfjöllunar í hinum frábæra þingsal þar sem úrvinnsla málanna okkar fer fram, og að um þau yrðu greidd atkvæði. En sumt er óþægilegra en annað. Það hlýtur að vera þungur baggi að bera að sitja í ríkisstjórn sem slær eins og með blautri tusku sífellt framan í andlitið á þeim sem síst skyldi, þeim sem þeir ættu virkilega að taka utan um og hjálpa. Þessi aðferð hefur gjarnan verið notuð til þess að losna við það að sýna alþjóð hversu auðvelt er að fella hvert málið á fætur öðru, hvernig er bara ýtt á rauða takkann og bara: Burt með málið, við tökum ekki þátt í þessu lengur, og annað slíkt.

Þannig er að samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar skulu fjárhæðir bóta almannatrygginga, meðlagsgreiðslur samkvæmt 63. gr. laganna og fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt 22. gr. breytast árlega í samræmi við fjárlög. Skal ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir í rauninni á einföldu máli að það eru tveir liðir í þessari grein, annars vegar launavísitalan og hins vegar neysluvísitalan. Ef neysluvísitalan er lægri á að nota hina fyrir almannatryggingaþegana. En það sem stjórnvöld hafa gert er að þau hafa tekið neysluvísitöluna einmitt af því hún er lægri, til þess að leggja færri krónur um hver áramót til öryrkjans og ellilífeyrisþegans sem þurfa að reiða sig á framfærslu almannatrygginga. Mögulega hefur verið stefnt að því í upphafi að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar nytu hækkunar á ráðstöfunartekjum í sama hlutfalli og almenningur, en í reynd hefur framkvæmdin þó verið eins og við þekkjum og það virðist algerlega vera meginreglan í dag. Hún virðist vera sú að vísitölu neysluverðs er fylgt við ákvörðun bóta þó að hún hækki mun minna en launavísitalan.

Þar sem Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar og núverandi löggjöf felur Alþingi að ákvarða hækkanir bóta, hafa dómstólar talið það falla utan hlutverks síns að dæma um hvort rétt hafi verið staðið að hækkun bóta. Þess vegna leggjum við til að tekinn sé af allur vafi, það sé ekki geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra eða nokkurs annars ráðherra í ríkisstjórn að ákvarða það að af því að það er ódýrara þá sé það bara alveg nógu gott í þessa almannatryggingaþega að fá eins lága framfærsluuppbót á sína fátækt og mögulegt er. En í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðir bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar taki mið af launaþróun, eins og áður sagði, og verður að telja það fullkomlega sanngjarnt þar sem bætur greiddar á grundvelli laganna eiga almennt að koma í stað atvinnutekna sem öryrki getur ekki aflað sér eða sem ellilífeyrisþegi nýtur ekki heldur. Þá nýtur ríkissjóður aukinna tekna þegar laun hækka þar sem stofn tekjuskattsins hækkar. Og því er ákveðið samræmi á milli aukinna útgjalda ríkissjóðs og aukinna tekna almannatryggingaþega. Þá er lagt til að bætur hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Það er í rauninni aldrei hægt að klifa nógu mikið á þessu og ég veit ekki, virðulegi forseti, um þann guðlega mátt sem gæti komið í veg fyrir það að fylgja löggjöfinni. Við skulum ekki gleyma því að kjarabætur til almannatryggingaþega eru engar kjarabætur. Það er nákvæmlega það sem við erum alltaf að benda á. Þau fá ekki hækkanir ofan á eitt eða neitt. Þau hafa ekki möguleika á því að fara í verkfall og kalla eftir bættum hag. Þau þurfa bara að lengja raðirnar fyrir utan hjálparstofnanir til að biðja um mat. Það er veruleikinn í dag, virðulegi forseti, það er það sem við erum að horfa upp á hvern einasta dag og líka núna í þessu árferði, Covid. Það er alveg skelfilegt að þurfa að horfa upp á þetta. Það er sárara en tárum taki að hér skuli vera stjórnvöld sem láti þetta viðgangast. Að hér skuli vera ríkisstjórn sem segir: Við erum að safna 600 milljarða skuldum á næstu tveimur árum til að takast á við Covid-faraldurinn.

En hvað eru þau að gera fyrir fátækasta fólkið í landinu? Þeim er í lófa lagið að tryggja almannatryggingaþegum það að þeir fái aldrei minna en það sem eðlilegt er og gengur og gerist á launamarkaði landsins hverju sinni. Þeim er það í lófa lagið. Og ég kalla eftir því að þau hafi þá samvisku að þau sýni það í verki að það sé það sem þau vilja og ekkert annað. Þannig að 1. janúar ár hvert sé ekki búið að ákveða að henda 3,2%, 3,5%, eða einhverjum örfáum krónum í almannatryggingaþegann, alveg sama hvort gengið fellur um 10%, 20% eða hvað sem er, alveg sama þó að nauðsynjavörur hafa hækkað um ég veit ekki hvað mikið. Leiguverð, fasteignaverð, öll gjöld rjúka upp úr öllum rjáfrum, það er alveg sama. Að þau hækki ekki meira en um einhver X prósent, 3,5%, 3,6%, þó að launavísitalan hafi jafnvel hækkað um 7%. Þetta er réttlætismál, þetta er sanngirnismál. Þetta er mál sem við ættum öll að geta stutt og öll að vera sammála um að eigi að fara í gegn og það ekki seinna en strax.