151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

aðstoð við atvinnulífið og hina tekjulægstu.

[10:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Einhvern veginn þóttist ég vita að hæstv. forsætisráðherra myndi nefna þrepaskipta skattkerfið sem lið í jöfnun. Þó vitum við báðar, virðulegi forseti, að þrepaskipta skattkerfið sem ráðherra minntist á nýttist betur þeim tekjuhæstu en þeim tekjulægstu. Þeim tekjuhópi, þeim tekjulægstu, hefði einmitt gagnast best að fá sömu meðferð og fjármagnseigendur fá nú, þ.e. hækkun frítekjumarks eða persónuafsláttar. Nú fá fjármagnseigendur 150.000 kr. aukalega í ráðstöfunartekjur á mánuði en atvinnulausir fá 17.000 kr. mánaðarlega aukalega í ráðstöfunartekjur. Hvar er jöfnuðurinn í því, hæstv. forsætisráðherra?

Síðan vildi ég einfaldlega segja að mér finnst það ekki mikil hetjudáð að hækka fjármagnstekjuskatt um 2 prósentustig, upp í 22%, á meðan fjármagnstekjuskattur í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, á Norðurlöndunum, er á bilinu 30–42%.