151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

endurskoðun skaðabótalaga og bótasjóðir tryggingafélaganna.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin en þetta snýst um tölurnar. Tölurnar eru helmingi lægri en þær eiga að vera til 66 ára og yngri og 74 ára og eldri. Þetta er staðreynd sem hún getur breytt nú þegar. En því á auðvitað ekki að breyta vegna þess að á meðan spikfitna tryggingafélögin.

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði ekki einu og ég vil fá svar við því: Hvers vegna í ósköpunum eru þessir bótasjóðir ekki gerðir upp á fimm til tíu ára fresti eins og siðaðar þjóðir gera? Í þeim eru milljarðar sem væri hægt að nota í Grensás þar sem fórnarlömb slysa þurfa að sækja þjónustu, Landspítalann, lögregluna, þarna eru peningar sem vantar nauðsynlega inn í kerfið og kominn tími til að þessi ríkisstjórn komi út úr fjárhagslegri ofbeldisþoku sem hún virðist vera búin að sveipa um sig og hysji upp um sig buxurnar og komi þessu í lag. Þarna er fólk að tapa helmingnum af bótunum, bara vegna fjárhæðanna, sem er ekki neitt mál og myndi fljúga hérna í gegnum þingið (Forseti hringir.) ef ráðherra kæmi með það og ég spyr ráðherrann: Ætlar hún að koma og sjá til þess að tölurnar séu réttar og bótasjóðirnir gerðir upp?