151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:28]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn veltir fyrir sér af hverju fólk tekur ekki störf. Sá sem hér stendur getur kannski ekki svarað því, en einhverra hluta vegna hefur greiðslustofan haft rúmlega 200 manns til einhvers konar skoðunar fyrir það að neita að taka störf sem eru í gegnum vinnumiðlun. 80 hafa fengið felldar niður bætur af þessum sökum. Það er auðvitað þannig að einstaklingur á að taka vinnu, en geri hann það ekki þá tapar hann bótaréttinum vegna þess að hann er hugsaður til að aðstoða einstaklinginn við að brúa bilið frá einu starfi yfir í annað.

Síðan varðandi seinni fyrirspurnina um veiruna þá held ég að við séum ekki að missa mikið af veiru inn í landið núna. Þetta er aðallega veira sem er í samfélaginu. Við höfum verið í umtalsverðum sóttvarnaaðgerðum til að vinna bug á henni. Ég held að við höfum farið skynsamlega leið í þessu. Það er rosalega auðvelt að standa hér og segja „ef og hefði“. Ég mun örugglega gera það sem ráðherra. (Forseti hringir.) Þegar maður horfir til baka og yfir málaflokkinn er örugglega eitthvað sem maður hefði viljað gera öðruvísi, einhverju hefði maður viljað sleppa því að gera eða gera ekki. Ég held að það sé eðlilegt. En ég held að allir hafi verið að reyna að bregðast við af bestu getu og með bestu vitund við mjög sérstakar aðstæður í íslensku samfélagi.