151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski best að byrja á því að nefna að það voru tvö þrep í tekjufallsstyrkjafrumvarpinu. Það var núll þrepið, þ.e. allir sem voru með minna en 50% samkvæmt upprunalegu frumvarpi, og svo þrepið upp á við, sem voru þá allir með 50% eða meira. En þeir sem voru með 49,9% í upprunalegu frumvarpi átti ekki að fá neinn stuðning. Við löguðum það svo það væri 40% og svo eitt þrep til viðbótar, en mér fannst þá, og ég hélt ræður um það á sínum tíma, sem var reyndar fyrir nokkrum vikum, að þetta væri ekki góð leið. Það er rétt að sennilega þarf að velja einhvers konar afskurðarpunkt. Ég er ekki viss um á hvaða forsendum 60% voru valin en mér þykir nokkuð ljóst að það að velja einhverja tiltekna tölu er alltaf vandkvæðum háð og yfirleitt best gert með því að horfa á tölurnar.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti útskýrt það fyrir mér og þingheimi hvernig talan 60% var valin. Ég er rosalega áhugasamur um handahófskenndar tölur og þessi tala er ekkert minna handahófskennd en hver önnur. Þetta er bara tala sem var valin, nema auðvitað að baki hennar liggi einhver skýring.

Ég velti því líka fyrir mér hvort það séu einhver sérstök rök fyrir því að skera þá sem eru með 59,9% tekjufall burt frá þessu stuðningsúrræði. Það er rétt að sumir geta leitað í t.d. yfirdrætti hjá bönkum með himinháum vöxtum og annað á meðan önnur fyrirtæki munu njóta góðs af tekjufallsstyrkjunum og koma vonandi til með að njóta góðs af þessu. Spurningin er: Hvernig eru mörkin skilgreind? Fyrir hverja? Fyrir hvaða hóp fyrirtækja? Hvernig er það ákveðið hverjir skuli njóta góðs af slíku og hverjir ekki? Mér sýnist þetta vera aðeins of handahófskennt og ekki nógu vel rökstutt hvers vegna þessi tiltekni afskurðarpunktur var valinn, (Forseti hringir.) sér í lagi óttast ég að mjög mörg fyrirtæki verði eftir úti í kuldanum, eins og hæstv. ráðherra kallaði það.