151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og ég er ekkert að draga úr því að þetta er mikilvægt úrræði, svo sannarlega. En það verður líka að gagnast þeim sem virkilega þurfa á því að halda. Ég held einmitt að það hafi ekki verið skoðað nægilega vel. Áttum okkur á því að þegar verið er að miða við stöðugildi að þessi fyrirtæki eru mörg hver búin að segja fólki upp, það er bara farið. Þess vegna er erfitt að ákvarða bæturnar í rauntíma sem þyrfti þá að vera eins og staðan er hér og nú vegna þess að það er okkur öllum mjög mikilvægt að þessi fyrirtæki geti haft öfluga viðspyrnu þegar að því kemur. Það er náttúrlega tilgangurinn með þessum styrkjum að hjálpa fyrirtækjunum að fara öflug af stað þegar landið opnast og ferðamenn fara að koma hingað. Ég held að menn hafi ekki alveg hugsað þetta til enda. Þetta er orðið, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér, allt of flókið og það er verið að draga alls konar hluti frá. Fólk hefur þurft að selja eignir til þess hreinlega að lifa af. Það er dregið frá, það er sagt vera söluhagnaður o.s.frv. Ég held að menn verði að fara mjög vandlega yfir þetta í nefndinni og sérstaklega, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að víkja að einyrkjunum sem eiga þessi fyrirtæki. Þeir eru undanskildir þessum viðspyrnustyrkjum. Þeir mega ekki telja sjálfa sig með. Þetta getur skapað margvísleg vandamál þannig að á endanum gæti, eins og ég sagði áðan, fólk bara gefist upp, loksins þegar kemur að því að ferðamenn fari að koma hingað aftur og við þurfum svo sannarlega á þessari viðspyrnu að halda. Mín tilmæli eru þau að þetta verði sérstaklega skoðað innan nefndarinnar og þá sérstaklega hvað varðar einyrkjana.

Vissulega nefndi hæstv. ráðherra að það væru ákveðnir möguleikar en þegar menn voru að sækja um voru þeir að sækja um í góðri trú og svo kom í ljós að þeir áttu ekki rétt á styrknum af því að þeir voru eigendur fyrirtækisins og þá þurftu þeir að endurgreiða. (Forseti hringir.) Það er mikið flækjustig í þessu sem við verðum að einfalda.