151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að segja varðandi fjármögnun hallans að við ætlum að beita öllum tiltækum ráðum og höfum mjög mikinn stuðning frá Seðlabankanum. Ég rakti það hvernig við höfum verið í útgáfum á yfirstandandi ári og munum leita færis til að halda útgáfum áfram á næsta ári og við höfum bæði möguleika til þess innan lands og utan. Ef það opnast möguleikar á eignasölu eigum við að skoða þá o.s.frv.

Varðandi málefni hælisleitenda er það rétt sem hv. þingmaður segir, það er áhyggjuefni að kostnaðurinn haldi áfram að vaxa og það gerðist ekki sem við áttum kannski frekar von á þegar flugferðum til landsins fækkaði svo mjög sem raun varð, að það drægi með samsvarandi hætti úr komum hælisleitenda. Við höfum verið að halda uppi af þessum sökum að jafnaði í kringum 500 manns á hverjum tíma sem bíða efnislegrar meðferðar. Það er mín skoðun að þetta kerfi sé of tafsamt og of kostnaðarsamt og það kallar á viðbrögð.