151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Bara aðeins þarna í lokin, út af því að ég hef svo mikinn áhuga á kvikmyndagerð. Greinin sjálf hefur sagt: Við þurfum að fara upp í 35% út af lagaumgjörð og hvatakerfi í öðrum ríkjum. Fréttir bárust af því nýverið að milljarðaverkefni væri að færast frá Íslandi yfir til Írlands, kvikmynd sem á að gerast á Íslandi. Hún færist til Írlands af því að þeir eru með aðeins hærra endurgreiðsluhlutfall en Íslendingar, og takið eftir því að við greiðum ekki krónu út úr ríkissjóði fyrr en miklu meira er komið inn. Síðan kemur endurgreiðslan. Afleiddu áhrifin eru gríðarleg varðandi störf og umsvif og skatttekjur. Þetta finnast mér svo augljós sóknarfæri og vil hvetja ráðherrann til að gera þetta strax eftir helgi. Þetta er svo einföld aðgerð og myndi njóta þverpólitísks stuðnings í þessum sal. Ég fullyrði það.

Varðandi atvinnuleysisbæturnar: Jú, ég get alveg tekið undir það sem ráðherra segir, það þarf að skoða þetta í samhengi við tryggingagjaldið sjálft. En við stöndum frammi fyrir neyðarástandi á íslenskum vinnumarkaði. Það eru 20.000 Íslendingar atvinnulausir. Atvinnuleysi hefur aldrei verið eins mikið. Það stefnir jafnvel í að 25.000 manns verði án atvinnu um jólin. Til að setja þetta í samhengi þá eru þetta fleiri störf en samanlagt á Akureyri, í Reykjanesbæ, á öllum Austfjörðum og á Vestfjörðum. Sjáið þið umfangið. Þetta er gríðarlegur fjöldi. Og atvinnuleysi er félagsleg og efnahagsleg hörmung fyrir þá sem lenda í því og ekki síst langtímaatvinnuleysi. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni sagt: Ókei. Hækkum atvinnuleysisbætur, þó ekki sé nema tímabundið, á meðan enga atvinnu er að hafa. Gerum fólki lífið aðeins auðveldara. Og þessir peningar koma líka til baka. Með þessari einföldu aðgerð værum við einmitt að láta peningana, sem við erum tilbúin til að útdeila hér, vinna. Þetta er góð hagfræði og góð pólitík, eins og ég þreytist seint á að benda á, peningarnir fara strax út í samfélagið. Þetta getum við gert. (Forseti hringir.) Við sáum að ríkisstjórnin var tilbúin að stíga skref í síðustu viku, að hækka atvinnuleysisbætur, (Forseti hringir.) þannig að prinsippið er ekki lengur til staðar hjá ráðherra, eins og áður var, að vilja ekki hækka þær. Það eina sem við erum að kalla eftir er: Hækkið þetta meira, (Forseti hringir.) komið til móts við fólk sem er að upplifa afskaplega erfiða tíma. Það er hlutverk okkar í þessum sal, herra forseti.