151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Að máli málanna, fjáraukalögum. Fyrstu mistök ríkisstjórnarinnar voru að gera ráð fyrir að þetta væri skammvinnur faraldur. Að gera meira en minna rímar nefnilega ekki við þá stefnu, réttara væri að vona hið besta en undirbúa sig fyrir hið versta. Það vanmat að þetta yrði bara skammvinnur faraldur hefur gert það að verkum að ríkisstjórnin er alltaf að elta skottið á faraldrinum, alltaf að bregðast við eftir þörfum. Það hefur meira að segja verið stefnan. Það er ekki mikil forsjálni í því. Það er engin stefna úr þeim vanda sem við sjáum fyrir okkur heldur einfaldlega viðbragðsaðgerðir sem skila engum markvissum árangri gagnvart vandamálum framtíðarinnar sem við ættum að vera að skoða betur hver geta orðið.

Það er held ég öllum ljóst að samfélagið sem tekur við eftir kófið verður alls ekki eins og samfélagið sem var fyrir. Ferðaþjónustan verður ekki strax alveg eins. Samt hafa allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið til að viðhalda öllu því sem var fyrir kófið og að passa upp á að þegar það klárast geti allt farið í gang aftur. Ég tel það ekki raunhæfa stefnu, sérstaklega ekki úr því sem komið er. Og hún var það heldur ekki í upphafi faraldursins.

Að vona hið besta en búast við hinu versta var ekki stefnan sem var tekin en það hefði átt að taka þá stefnu. Sú bjartsýni sem einkenndi störf ríkisstjórnarinnar gerði það að verkum að meðal fyrstu viðbragða hennar var 3 milljarða kr. auglýsingaátak sem var beint að ferðamönnum. Það segir sína sögu um hversu alvarlega stjórnvöld tóku þær aðstæður sem blöstu við mörgum. Þetta var helmingi hærra framlag en gert var ráð fyrir til nýsköpunar á þeim tíma. Ríkisstjórnin sá þó að einhverju leyti ljósið í umræðum um málið, tvöfaldaði fjárhæðina til nýsköpunar og endaði í sömu upphæð og fyrir auglýsingaátak til ferðamanna. Áframhaldandi bjartsýni gerði það að verkum að landamærin voru opnuð í sumar þrátt fyrir að á þeim tíma hefðu aldrei verið eins mörg ný tilfelli Covid á heimsvísu. Það er mjög merkileg ákvörðun að taka. Þegar faraldurinn fór upp á heimsvísu var ákveðið að opna fyrir ferðamenn enda mátti væntanlega ekki sóa þeim 3 milljörðum sem voru notaðir í auglýsingaátak.

Þetta ár hefur einkennst af vanmati, eða réttara sagt engu mati. Aðgerðir stjórnvalda hafa verið fálmkenndar og þingið fær ekki rökstuðning fyrir þeim. Það er einfaldlega ekkert lagt á borðið sem segir: Ástæðan fyrir því að við gerum þetta er að staðan er svona og ef við gerum þetta ekki verður hún verri eða eitthvað þar fram eftir götunum. Til dæmis voru brúarlánin einfaldlega lögð á borðið. Við vitum ekki hvort þau koma til með að redda einhverju. Raunin er að þau redduðu ekki neinu, alla vega ekki nærri strax og eru líklega ekki búin að redda neinu enn þá. Svona aðgerðir eru hluti af þeirri röð mistaka sem ríkisstjórnin hefur gert í þessum faraldri.

Segja má að það sem hafi að einhverju leyti verið rétt gert séu sóttvarnaaðgerðirnar sjálfar, en — með stóru en — enginn rökstuðningur fylgdi þeim aðgerðum annar en álit sóttvarnalæknis sem er gott og blessað frá hans sjónarhorni. Heilbrigðisráðherra á til að mynda að taka sjónarmið annarra hagsmunaaðila inn í myndina, varðandi áhrif á geðheilbrigði þjóðarinnar, áhrif á atvinnuleysi og ýmislegt annað. Þó að niðurstaðan hefði kannski ekki verið neitt öðruvísi á samt að leggja fram slíkan rökstuðning og það var ekki gert. En í rauninni er erfitt að rífast við útkomuna. Eins og er erum við með einna bestu stöðuna í Evrópu, sem er jákvætt. En það er líka kostnaðarsamt. Svigrúminu sem við höfðum til peningaprentunar í ríkisfjármálum hefur verið sóað að miklu leyti. Af 300 milljörðum í nýmyndum peninga, í peningaprentun, hafa um 200 milljarðar farið inn á fasteignamarkaðinn. Það er ekki beint markviss aðgerð til að glíma við áfall sem lendir mjög ójafnt á fólki og fyrirtækjum. Svo merkilegt er það.

Okkur vantar stefnu út úr kófinu. Vonin nú er að allt haldi áfram eins og ekkert hafi í skorist. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið biðaðgerðir, að bíða af sér kófið og byrja bara aftur þar sem frá var horfið, eins og ekkert hafi í skorist. Stærsta áskorunin vegna þeirrar stefnu er hins vegar atvinnuleysi. Ég sé engar sérstakar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi, ekki á borð við þær sem stjórnarandstaðan lagði t.d. fram í upphafi faraldursins. Stjórnarandstaðan lagði þá fram hugmynd um þrefalt hærri upphæð til nýsköpunarmála sem kom á daginn að var tiltölulega nákvæm tala, t.d. miðað við úthlutunarhlutfall í Tækniþróunarsjóð. Það fjármagn hefði allt nýst. Það var nokkurn veginn hárnákvæm tala um hvað þyrfti til. Að sjálfsögðu hefði þurft meira í kjölfarið. Það hefði verið framsýn stefna, að sjá fyrir hvað þyrfti inn í sumarið og haustið, en ekki bara viðbrögð við því sem var að gerast þá.

Mig langar að minnast á nokkur atriði almennt séð varðandi lög um opinber fjármál og fjáraukalagafrumvarpið sem við höfum hér. Í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra áðan talaði ég um sjúkrahúsþjónustu og stöðuna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi vegna uppsafnaðs halla sem Landspítalinn glímir við. Í þeirri yfirferð sem fjárlaganefnd hefur fengið um hallann hafa verið gefnar þær útskýringar að hann sé vegna mönnunarvanda og það sé erfitt að fá hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ýmsa heilbrigðisstarfsmenn til starfa. Þar af leiðandi þurfi að vinna meiri yfirvinnu, aukavaktir og ýmislegt svoleiðis sem er dýrara. Það er dýrara en það er til þess að spítalinn sinni lögbundinni þjónustu. Við ættum að sjá til þess að fjárheimildir séu þannig að ekki þurfi að skera niður þjónustu til að vega upp hallann.

Hinn klassíski fráflæðisvandi er annar hlutinn af þessum útskýrða halla. Fólk sem hefur lokið meðferð og þarf aðhlynningu í kjölfar meðferðar hefur enga aðstöðu til að fara í. Útskriftarvandi og fráflæðisvandi eru voðalega falleg orð, eða ekki falleg orð, um mjög alvarlegan vanda. Þetta gerir það að verkum að þeir sem hafa lokið meðferð en þurfa aðhlynningu í kjölfar meðferðar liggja inni í dýrum sjúkrahúsrýmum. Það kostar, það býr til halla.

Þriðja stóra atriðið er, samkvæmt því sem hæstv. fjármálaráðherra segir, sú skoðun Landspítalans að vanreiknað hafi verið hversu mikið kjarasamningar hafi kostað. Þar af leiðandi eru lagðar til lægri fjárheimildir en þarf til að borga fyrir téða kjarasamninga. Það þýðir aðhaldsaðgerðir á móti. Til þess að skera ekki niður þjónustuna, miðað við öll þau gögn sem við höfum farið yfir í fjárlaganefnd með Landspítalanum, hefur spítalinn farið í hallarekstur. Það er vissulega nauðsynlegt að skoða það þegar upp kemur halli hjá ríkisstofnunum. Lög um opinber fjármál eru mjög skýr um hvað eigi að gera. Ráðherra á strax að koma með viðvörun um hvað sé að fara að gerast og tillögur um aðgerðir til að bregðast við því. Er það til staðar? Nei. Ársskýrsla heilbrigðisráðherra frá 2019 útskýrir 3,8 milljarða kr. halla sjúkrahússins svona: Engin útskýring, ekkert. Þau vilja að því er virðist ekki viðurkenna að þetta séu lögmætar útskýringar. En þetta eru útskýringar sem hafa verið fluttar fyrir fjárlaganefnd. Þetta eru útskýringar sem berast í ráðuneytið. Landspítali lætur sjúkrahúsið að sjálfsögðu vita af þessu en það ratar ekki í ársskýrsluna af einhverjum orsökum.

Síðasta atriðið hérna er flutningur fjárheimilda frá örorkulífeyri yfir í endurhæfingarlífeyri. Samkvæmt framsögu hæstv. fjármálaráðherra eru 2 milljarðar fluttir yfir í endurhæfingarlífeyri vegna aukinnar áherslu á endurhæfingu. Ég get alveg tekið undir að það er alveg tvímælalaust þörf á aukinni endurhæfingu en, og rosalega stórt en, þetta eru fjáraukalög. Hvað þýðir það? Það þýðir að þegar tekin er stefnumótandi ákvörðun um aukna áherslu á endurhæfingu þurfum við að fá umsagnir um það, um áhrif hennar. Við þurfum að fá þá stefnu inn á þing til þess að fjalla um hana og við þurfum að gefa fjárheimildir fyrir þeirri stefnu. Það er ekki ákvörðun sem framkvæmdarvaldið getur tekið upp á sitt einsdæmi og straujað yfir okkur og sett í fjáraukalög eftir á. Það er bara ekki ásættanlegt. Það stríðir rosalega og greinilega gegn lögum um opinber fjármál og að mínu mati gegn ákvæði stjórnarskrár um hvernig megi fara með fjárheimildir samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum. Það á ekki að gera þetta svona eftir á. Það á ekki að taka stefnumótandi ákvarðanir í fjáraukalögum því að með því er verið að hunsa venjulegt lýðræðislegt ferli þar sem hagsmunaaðilar geta komið með umsagnir um hvort þeim finnist ráðstöfunin góð eða ekki, hvort einhverjar aðrar hugmyndir séu í gangi, hvað annað sé í boði. Það er straujað yfir það og bara komið með þetta inn í fjáraukalög. Gjörið svo vel, 2 milljarðar af ákvörðunum. Við ætlum að gera svona af því að okkur er alveg sama hvað umsagnaraðilar hafa um það að segja. Við ætlum bara samt að gera það. Þetta gæti vel verið góð ákvörðun. Hún þarf samt að fara í gegnum lýðræðislegt ferli.