151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

108. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það er í rauninni eitthvað sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu miðað við forsöguna. Tillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Í greinargerð kemur fram að þingsályktunartillagan var lögð fram á 150. löggjafarþingi, ég er að mæla fyrir henni í annað sinn, og hún er lögð fram að nýju óbreytt. Nú er nefnilega liðinn meira en áratugur frá því að Ísland sótti um að hefja aðildarviðræður um inngöngu í Evrópusambandið og sjö ár frá því að gert var hlé á þessum sömu aðildarviðræðum. Samninganefnd Íslands var leyst upp árið 2013 og vorið 2015 sendir þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins þess efnis að ríkisstjórn Íslands hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og að ekki bæri að líta á Ísland sem umsóknarríki. En í raun ríkir þó ákveðin óvissa um stöðu aðildarumsóknar Íslands. Það ríkir alger óvissa, það sýnist sitt hverjum og ekki eru allir á eitt sáttir um það hvort við vorum raunverulega að draga umsóknina til baka eða ekki.

Í kjölfar bréfsins lýsti talsmaður stækkunardeildar Evrópusambandsins því yfir að sambandið liti ekki svo á að Ísland hefði dregið aðildarumsóknina til baka og að bréfið væri ekki ígildi uppsagnar. Á heimasíðu Evrópusambandsins er sagt að breytingar hafi verið gerðar á verklagi í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands hafi beðið um að ekki yrði litið á Ísland sem umsóknarríki. Ekki er þó ljóst hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda. Aðildarumsóknin liggur sem sagt einhvers staðar á ís.

Aðildarumsókn Íslands var lögð fram í kjölfar þess að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu þess efnis að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Alþingi hefur aftur á móti aldrei samþykkt tillögu um að umsóknin verði dregin til baka. Tillögur þess efnis hafa verið lagðar fram en ekki hlotið brautargengi.

Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram til þess að tryggja að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu — ef það er það sem við viljum. Það er algerlega ástæðulaust að hafa þetta í þessu limbói. Staðreyndin er sú að ég tel og er sammála því sem fram kemur hjá fulltrúum Evrópusambandsins að auðvitað var þessi umsókn aldrei dregin til baka, burt séð frá þeim vilja sem lá að baki því bréfi sem fyrrverandi utanríkisráðherra sendi á sínum tíma. Hver svo sem sá vilji var, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að það er Alþingis, það er löggjafans, lýðræðisins og löggjafans, að taka ákvörðun um þessi mál. Það getur ekki bara einhver einn ráðherra skrifaði bréf og sagt: Ég vil ekki sjá þetta lengur og nú er þetta á bak og burt. Sem betur fer þá virkar kerfið okkar ekki þannig þótt á því megi finna ýmsa galla.

Það er löngu tímabært að fá úr þessu skorið og ég býst við því að hv. alþingismenn, ráðherrar sem aðrir, taki því fagnandi að koma þessu út af borðinu, annaðhvort að segja að aðildarumsóknin verði dregin til baka formlega eða ekki. Hitt er svo önnur saga hvort það sé einhver almennur vilji að ganga í Evrópusambandið. Það hefur ekki verið uppi á pallborðinu hjá Flokki fólksins í það minnsta. Annars hefði ég sennilega ekki verið sú sem hefði stigið fram til þess að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. En á meðan hlutirnir eru eins og þeir eru og við höfum í rauninni enga ástæðu til þess að kasta okkur lengra inn í fangið á Evrópusambandinu en raun ber vitni í gegnum EES-samninginn, okkar samning um Evrópska efnahagssvæðið, er ástæðulaust að þessir hlutir séu í einhverri óvissu.

Ég vona að það verði tekið vel utan um þetta mál og þingheimur sjái ástæðu til að eyða allri óvissu um það. Hitt er svo önnur saga að einhverjum gæti þótt það óþægilegt og kannski verður það eins og með málin okkar í Flokki fólksins og fleiri flokka hér að þetta fer bara í ruslið. En hvað um það.