151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:24]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra myndi ekki gera mér upp skoðanir. Ég var í fyrsta lagi ekki að tala Landhelgisgæsluna niður. Mér finnst stofnunin mikilvæg. Hún gegnir ótrúlega mikilvægu hlutverki og ég veit ekki betur en að ég hafi eytt 15 mínútum eða hér um bil einmitt í að tala fyrir því að hún sé gerð öflugri, með fleira starfsfólki, með betri búnaði og meira fjármagni til verka. Ég veit ekki betur, en einhver getur kannski spólað til baka og athugað það.

En þegar við horfum á raunveruleikanum þá er það svo að menn hafa áhyggjur af þessum H225-þyrlum. Þær áhyggjur eru raunverulegar. Ég kaupi það ekki alveg að ástand á olíumörkuðum sé þess eðlis að fullt af olíufyrirtækjum í Noregi séu allt í einu hætt að kaupa H225-þyrlur farið að kaupa AgustaWestland-þyrlur í staðinn bara vegna þess að það er slæmt ástand á olíumörkuðum. Afsakið, ég trúi því bara ekki.

Ég veit ekki einu sinni hverju ég á að svara frekar. Auðvitað er það á ábyrgð hæstv. ráðherra að leysa úr þessum kjaradeilum með beinum eða óbeinum hætti. Auðvitað ætti ástandið ekki að vera þannig hjá Landhelgisgæslunni að þetta væri komið í pattstöðu. Og jú, þetta sigldi í strand í gær. En kannski ef það hefði verið einhvern veginn öðruvísi að málum staðið, kannski ekki alltaf brugðið á það ráð að stilla fólki upp við vegg í svona stöðu, þá værum við kannski ekki hér í dag.