151. löggjafarþing — 28. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[20:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrsta hugsun mín þegar kom boð um að koma til þings og setja lög á verkfall var: Nei, gerum það ekki, verkfallsrétturinn er heilagur, hann er varinn og við eigum að reyna allt til þess setja ekki lög á hann. En þá var spurningin: Getur maður setið hjá á svona tíma? Ég tel það ekki boðlegt. Í því ástandi sem um er að ræða hjá Landhelgisgæslunni, með þyrlur sem eru lífsnauðsynlegar til þess að fara í útköll ef á þarf að halda, verður maður að taka afstöðu. Eftir að hafa skoðað málið frá öllum hliðum, hlustað á alla þá sem komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, þá er niðurstaða mín skýr: Ég verð að taka afstöðu. Mín afstaða er já. Ég styð þetta og ég sá það á þeim upplýsingum sem við fengum í allsherjar- og menntamálanefnd að þarna eru engir rembihnútar á ferð hjá samninganefndunum, það er smáslaufa, laus slaufa. Það þarf að setjast niður og finna endann á þessari slaufu og þá er þetta búið. Það ber ekki mikið á milli, en þarna er eitthvað að sem þarf að leysa. Þetta á að vera hægt að leysa og ég vona heitt og innilega að það gerist. Þeir hafa fram í febrúar til þess að leysa þessa deilu og það á að vera nóg og vonandi tekst það með samningum. En eins og ég segi, ég verð að styðja þetta mál, bæði vegna þeirra upplýsinga sem ég fékk og líka vegna þess að við getum ekki tekið séns á þessu því að þarna getur verið líf í húfi. Við verðum að tryggja að sú staða komi ekki upp.