151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að með nýjum lögum — við segjum ný lög, en þau eru orðin alla vega fimm ára gömul — var skorið á þessa tengingu og markaðir tekjustofnar renna í ríkissjóð. Svo eiga þeir að renna þaðan aftur yfir í verkefnin. Það var samt ýmislegt sett til hliðar, eins og almannatryggingar, tryggingagjald o.s.frv. En það breytir því ekki að rökin fyrir því að gjöldin eru sett er sá kostnaður sem þau eiga að dekka og þegar upphæðin er ákveðin er vísað í hann. Ef hv. þingmaður hefur lesið frumvörp sem komið hafa eftir árið 2015 (Gripið fram í.) með tillögum um gjöld, þá eru rökin oft sá kostnaður sem þau eiga að dekka. Það er oft þannig. Stundum eru gjöldin til að stýra hegðun fólks. Það er í sumum tilfellum þannig en alls ekki í öllum. Langflestum þeim gjöldum sem talin eru upp í því frumvarpi sem við ræðum núna er ætlað að standa undir kostnaði og voru upphaflega sett með þeim rökum. Þannig er nú það, herra forseti.