151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að endurskoða gjaldtökuna og rökin fyrir henni. Áfengisgjald og tóbaksgjald eru til að koma á móts við kostnað í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að þessum vörum. Hafandi sagt það þá tek ég undir með hv. þingmanni að allar gjaldskrár þarf að endurskoða. En af því að klukkan er frosin og ég sé að ég hef nægan tíma, þá vil ég spyrja hv. þingmann um þá forgangsröðun sem birtist í þessu frumvarpi. Það er á nokkrum stöðum talað um viðmið sem sett voru árið 2010, t.d. varðandi frítekjumark vegna launatekna öryrkja og viðmið vegna vaxtabóta sem ekki er hreyft við, ellefta árið. Það er auðvitað til þess að rýra kjör öryrkja að fara þessa leið og einnig þeirra sem notið hafa vaxtabótanna hingað til, en núna eru það helst þeir sem eru 48 ára og eldri í efri tekjuhópum sem njóta vaxtabótanna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnst um þá forgangsröðun að taka hins vegar viðmiðin vegna erfðafjárskatts og hækka þau um 233% og áform um að breyta (Forseti hringir.) skattstofni fjármagnstekjuskatts á móti þannig að hann lækki. Hvað finnst hv. þingmanni um þessa forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar?