151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:04]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans sem var góð og efnismikil. Ég er aðeins að velta fyrir mér því sama og hv. þm. Bergþór Ólason hér á undan og raunar hv. þm. Oddný G. Harðardóttir líka, þ.e. þessu sambandi milli gjalda og svo þess sem er talin vera æskileg hegðun almennings. Skattar og gjöld eru eins og við vitum ekki bara notuð til að afla tekna fyrir ríkissjóð og almannasjóði heldur eru þau líka notuð til að beina fólki frá óæskilegri hegðun. Þetta eru skilaboð til samfélagsins um hvað sé æskilegt að nota og hvað sé óæskilegt að nota. Þess vegna hvarflar að manni að stjórnvöld vilji senda þau skilaboð til kvenna að það sé óæskilegt að nota tíðavörur og þess vegna skuli skattleggja þær. Það hvarflar að manni en kannski er það bara einhver slysni.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins meira út í þetta með kolefnisgjöldin sem mér finnst dálítið merkilegt umhugsunarefni og gæti ef vel tekst til orðið mikilvægt tæki í baráttunni við loftslagsbreytingar. Hvar myndi það að mati hv. þingmanns fara að bíta? Hversu hátt þarf kolefnisgjaldið að vera? Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni í því að þetta beinist aldrei gegn einstaklingunum, borgurunum. Að sjálfsögðu beinist þetta líka að hegðun þeirra á markaði og neysluhegðun þeirra. En hversu hátt þyrfti kolefnisgjaldið að vera til þess að það færi að bíta (Forseti hringir.) og raunverulega að beina fólki í átt að samgöngum sem eru (Forseti hringir.) hliðhollari áframhaldandi lífi á þessari jörð?