151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að ræða kolefnisgjöldin sem hv. þingmaður vék nokkuð að í sinni ræðu. Ég tók eftir því að hann kallaði kolefnisgjöldin landsbyggðarskatt. Það er mikil lenska hjá Miðflokknum að tefla málinu fram þannig að landsbyggð og höfuðborgarsvæði standi einhvern veginn í eilífðarþrætu um lífskjör í þessu landi. En mig langar bara að heyra hvernig hann fær það út að kolefnisgjald á eldsneyti sé landsbyggðarskattur vegna þess að þau leggjast væntanlega á einstaklinga í hlutfalli við notkun þeirra á eldsneyti sem er aftur í hlutfalli við notkun viðkomandi á ökutækjum sem ganga fyrir því eldsneyti. Munurinn á meðalakstri fólksbíla er enginn milli höfuðborgar og landsbyggðar. Árið 2018 keyrði meðalfólksbíllinn á höfuðborgarsvæðinu 12.500 km en meðalfólksbíllinn á landsbyggðinni 13.000 km. 12.500 km og 13.000 km. Þetta er ekki það mikill munur að hann réttlæti það að mála upp einhverja landsbyggðarskattsgrýlu hérna.

Svo langar mig að spyrja þingmanninn, vegna þess að hann fór í sögulegt yfirlit yfir þróun kolefnisgjaldsins, hvort hann hafi skoðað hvernig gjaldið hefur í rauninni ekki fylgt verðlagsþróun á þessum 11 árum sem það hefur verið við lýði. Árið 2009 var miðað við að hvert tonn af koltvísýringsígildi kostaði um 4.000 kr. Nú er það komið upp í 4.300 kr.(Forseti hringir.) en ætti, ef það hefði fylgt verðlagi, að vera um 5.000 kallinn.